Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:32:40 (4877)

2001-02-20 18:32:40# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur þótt dálítið merkilegt í þeim málflutningi sem hér var hafður uppi er að ef umrætt ráðgefandi ráð setti reglur, þá væri hættan sú að einstaka þingmenn væru með stæla, virtu hugsanlega ekki þær reglur, og ef ég man orðræðuna rétt þá mundu þeir nota þessar reglur til að reyna að beita þeim gegn meiri hlutanum eða notfæra sér einhverjar slíkar reglur til að ná sér niðri á meiri hlutanum ef ég man orðræðu eins hv. þm. hér fyrr í dag og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virtist taka undir.

Ég vil þess vegna af þeim ástæðum einum nefna af því að hv. þm. er formaður allshn. og að hluta til heyrir a.m.k. skýrsla umboðsmanns Alþingis undir nefndina, hún kemur til skoðunar í allshn., og umboðsmaður Alþingis hefur ekki úrskurðarvald af neinum toga, álit hans er ráðgefandi. Hann fjallar um það álitaefni sem undir hann er borið, sem lýtur að málsmeðferð í stjórnsýslunni fyrst og fremst og álit hans er ráðgefandi. Hann er virtur sem slíkur, enda held ég að flestir hafi smám saman komist á þá skoðun að rétt sé að virða þá niðurstöðu sem umboðsmaður kemst að og það er orðið mjög sjaldgæft að þær séu dregnar í efa.

Þess vegna er það fyrst og fremst virðingin og það hvernig menn vinna sem ræður því hvort menn framfylgi eða fylgi eftir þeim reglum sem settar eru. Þess vegna finnst mér það ekki vera sterk rök í umræðunni þegar menn halda því fram að þar sem ekki er um að ræða bindandi reglur þá sé hættan sú að ef þetta verður að lögum, sem ég er smám saman farinn að draga í efa eftir umræðuna í dag, þá muni menn notfæra sér þessar reglur til að ná sér niðri á meiri hlutanum.