Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:34:59 (4878)

2001-02-20 18:34:59# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. sé að leggja mér einhver orð í munn og rugla ræðu minni við ræður einhverra annarra, enda upptekinn við einkunnagjöf í þeim efnum, þannig að það er ósköp skiljanlegt að einhverjar ræður ruglist. En engu að síður hefur þeim ábendingum heldur ekki verið svarað sem komu fram fyrr í dag að þegar málsmetandi menn, mjög virtir menn, ekki bara úti í bæ heldur líka hjá lagadeild Háskóla Íslands koma á fund þingnefnda og koma með ákveðin atriði, að ekki er farið eftir þeim. Af hverju? Af því að það er einfaldlega pólitík í gangi.

Ég held að þegar við lítum heildstætt á þetta mál og þá kosti sem ég nefndi áðan í ræðu minni, þá komi þetta lagaráð alltaf til með að vera ráðgefandi, lagaskrifstofur hvar sem þær verða staðsettar því að á endanum eru það alltaf þingmenn sem þurfa að gera það upp við sig hverju þeir ætla að greiða atkvæði. Þeir þurfa að eiga við samvisku sína, sannfæringu því að þeir eru sannir umbjóðendur fólksins.