Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:36:21 (4879)

2001-02-20 18:36:21# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:36]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur vissulega verið umræða um ráðgefandi ráð og niðurstöðu af því ef slíkar reglur yrðu settar. Hv. þm. vitnaði til umræðu sem fór hér fram fyrir nokkrum vikum í svokölluðu öryrkjamáli og vitnaði til þess að tilteknir aðilar hefðu komið á fund nefndar og lýst yfir ákveðinni skoðun og minni hlutinn hefði haft uppi aðra skoðun af því að það hefði fyrst og fremst verið pólitík í gangi.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, virðulegi forseti, að það hefur enginn í sjálfu sér lýst yfir því án fyrirvara að það mál sem við ræddum þá sé klárlega í samræmi við stjórnarskrána. Það hefur ekkert komið fram. Það er alveg klárt.

Í öðru lagi ætla ég að leyfa mér að halda því enn og aftur fram sem ég hef gert margoft að sú afturvirkni sem var í löggjöfinni í svokölluðu öryrkjamáli fær ekki staðist stjórnarskrána, ég er alveg sannfærður um það. Ég vil því, virðulegi forseti, mótmæla því harðlega að við sem hér erum --- af því að hv. þm. hafði orð á því að allir þingmenn væru bundnir af samvisku sinni --- værum að halda þessu fram fyrst og fremst af einhverri pólitík. Það er einfaldlega af því að a.m.k. sá sem hér stendur er sannfærður um það.