Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:37:45 (4880)

2001-02-20 18:37:45# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða hefur staðið lengi dags. Ég lít svo á að málið sem hér hefur verið rætt eigi fullan rétt á sér og fullt erindi inn í þingið, enda hefur umræðan borið það með sér að ekki er vanþörf á að ræða þessi mál.

Ég vil hins vegar víkja að því að í umræðunni í dag hefur komið fram að vanda þyrfti lagatæknileg atriði og fara yfir frumvörp og annað slíkt. Af mörgum ræðum sem hér hafa verið fluttar held ég að hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir hafi flutt eina af þeim betri, svo maður gefi einkunnir út og suður.

Ég vil hins vegar vekja athygli forseta þingsins á því að ég tel að hér í þinginu liggi fyrir frv. sem sé algerlega óþarfi að taka til meðferðar, og ég vil mælast til þess við hæstv. forseta að hann láti skoða það áður en lengra er haldið. Sem betur fer er ekki búið að mæla fyrir því en þetta frv. er um áhafnir íslenskra skipa. Ég held að þetta frv. standist ekki eins og það er fram sett, m.a. vegna þess að þar eru vitnað í alþjóðasamþykkt sem er ekki orðin til, hefur eingöngu verið staðfest af tveimur ríkjum, Rússum og Dönum, og samt eru í textanum hingað og þangað tilvitnanir í hana og það eru ýmis fleiri atriði. Ég vil bara mælast til þess við forsetana og láta reyna á það hvort þeim finnist ekki ástæða til að skoða þessa athugasemd og kanna hvort þetta á frv. á erindi til þingisins eins og það liggur fyrir.

(Forseti (GÁS): Forseti vill vekja athygli hv. 4. þm. Vestf. á því að hann er í andsvari við hv. 5. þm. Reykn. og vill biðja hv. þm. að vekja athygli á efni málsins undir réttum formerkjum.)