Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:39:54 (4881)

2001-02-20 18:39:54# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér hefur farið fram málefnaleg umræða í dag. Nokkurrar geðshræringar gætti um skeið, ekki síst hjá hæstv. forsrh. sem varð heitt í hamsi og nokkuð niðri fyrir þegar farið var að tengja þetta frv. og umræðuna dómnum í svokölluðu öryrkjamáli en þetta frv. til laga um lagaráð gengur einmitt út á að slíkt ráð verði Alþingi og Stjórnarráðinu til ráðgjafar um undirbúning löggjafar um það hvort frv. standist stjórnarskrá eða alþjóðasamninga.

Ég lít svo á að þetta frv. sé mjög gott innlegg í þá umræðu sem farið hefur fram og þarf að fara fram um leiðir til að styrkja löggjafarstarf þingsins en ég vil að það komi fram að ég tel að það starf sé almennt til mikillar fyrirmyndar. Ég held að lagasmíð sé almennt mjög vönduð. Að henni koma fjölmargir aðilar, iðulega úr ráðuneytum, sérfræðingar þingsins og það er einnig rétt sem hér hefur komið fram að sá háttur er hafður á við yfirferð frumvarpa að kalla til sérfræðinga, lögfróða og fulltrúa flestra þeirra aðila sem málið varðar á einn eða annan hátt.

Hins vegar hafa orðið slys, það vitum við öll, og stundum hafa þessi slys orðið þegar reynt er að hraða frumvörpum í gegnum þingið, oft í tengslum við fjárlög, og um það eru mörg dæmi frá liðnum árum. Síðan eru til annars konar slys. Ekki ætla ég að segja að þau séu ásetningsslys, slys eru þau en alvarleg engu að síður. Þá er frægast að nefna breytingar sem gerðar voru á almannatryggingalögunum undir lok árs 1997 en á grundvelli þeirra var kveðinn upp hæstaréttardómurinn sem ég vísaði til fyrr. Fleiri dæmi eru um dóma sem hafa sýnt fram á að lög stríða gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Það hefur verið vitnað í þessa dóma við umræðuna í dag, svokallaðan Valdimarsdóm, en það var dómur sem gekk í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu en þar dæmdi Hæstiréttur að tiltekin grein í lögum um stjórn fiskveiða, lögum nr. 38/1990, stangaðist á við stjórnarskrá landsins. Látið var reyna á 2. gr. sömu laga í svokölluðu Vatneyrarmáli en Hæstiréttur komst reyndar að þeirri niðurstöðu að hún stangaðist ekki á við stjórnarskrána. Síðast er þetta dæmi sem hefur orðið mönnum tilefni til mikillar umræðu og það er öryrkjadómurinn.

[18:45]

Þegar hann var kveðinn upp fyrst var a.m.k. svo að skilja á fréttum að það stjórnvald sem með málaflokkinn fór, Tryggingastofnun og heilbrrn., væru á því máli að dómurinn væri skýr og afdráttarlaus og ekkert því til fyrirstöðu að greiða öryrkjum í samræmi við hann. Ríkisstjórnin undir forustu hæstv. forsrh. var á öðru máli og fékk málið í hendur nefnd utanþingsmanna, lögfræðinga að sönnu, undir forsæti lögfræðings sem hafði gagnrýnt dóminn. Verkefni nefndarinnar var að greina dóminn og smíða lagafrumvörp sem reist væri á þeirri greiningu og væntanlega einnig erindisbréfi frá forsrn. eða ríkisstjórninni, bréfi sem Alþingi hefur ekki verið sýnt og hefur verið neitað að reiða fram þrátt fyrir margendurteknar óskir þar að lútandi og vísa ég þar í lögmann Öryrkjabandalags Íslands.

Þegar ég segi að mér finnst þetta frv. ágætt innlegg í umræðuna er ég ekki viss um að ég hafi endilega sannfæringu fyrir því að þetta sé eina rétta leiðin sem fær er til að skera úr í álitamálum eða ágreiningsefnum, sérstaklega varðandi hina stóru spurningu hvort lög eða lagafrv. standist stjórnarskrá landsins. Síðar á dagskránni er till. til þál. sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs leggur fram. Þar er lagt til að kannað verði hvort æskilegt sé að stofna stjórnlagadómstól eða stjórnlagaráð. Þetta er þáltill., ekki frv. eins og það sem við erum að ræða hér, enda er gert ráð fyrir því að fram fari könnun á þessu og allar hliðar málsins skoðaðar rækilega.

Því hefur verið haldið fram við umræðuna að með því að skipa lagaráð eða jafnvel stjórnlagadómstól eða stjórnlagaráð sé verið að ganga á hlut alþingismanna, lýðræðislega kjörinna fulltrúa, og færa vald yfir til dómara, lögfræðinga og embættismanna. Vissulega eru það rök sem ég hef viljað taka mjög alvarlega. Ég vek hins vegar athygli á því að í því frv. sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir ráðgjafarhlutverki þessa lagaráðs, ekki ákvörðunarvaldi. Hins vegar finnst mér vert að íhuga þetta mjög rækilega og vísa í ábendingu hv. þm. Péturs H. Blöndals sem benti á ákvæði í stjórnarskrá landsins um frelsi alþingismanna til þess að leggja fram lagafrv.

Ástæðan fyrir því að mér finnst hins vegar efni til þess að taka þessi mál til skoðunar er sá mikli ágreiningur sem risið hefur núna á síðustu mánuðum, bæði í Vatneyrarmálinu sem ég vitnaði til og ekki síður í öryrkjamálinu. Ég held að það sé mjög alvarlegt fyrir Alþingi þegar ekki er til farvegur sem sátt er um til að taka á slíkum ágreiningi, hvort sem það er með úrskurðarvaldi eða á ráðgefandi hátt. Mér finnst það vera mjög alvarlegt þegar upp koma deilur eins og sú sem varð í tengslum við öryrkjamálið að slíkur farvegur sé ekki fyrir hendi.

Hæstv. forseti Alþingis ritaði Hæstarétti bréf í nafni forsætisnefndar til að fá afstöðu hans til málsins. Þetta er væntanlega til marks um að hann telji að þörf sé á einhverjum slíkum farvegi enda hafa ýmsir þingmenn Sjálfstfl. og stjórnarliðsins --- ég vil taka það fram að ég sakna þess mjög að framsóknarmenn taki þátt í þessari umræðu. Ég held að engin framsóknarmaður hafi kvatt sér hljóðs um þetta mál --- en margir hv. þm. Sjálfstfl. hafa talið nauðsyn á því að fela Hæstarétti eitthvert ráðgefandi vald eða jafnvel úrskurðarvald. Þá hefur verið talað um að styrkja Hæstarétt jafnvel þannig að hann verði fullskipaður þegar hann tekur á slíkum málum.

Ég leyfi mér að hafa miklar efasemdir um slíka styrkingu Hæstaréttar því að mér finnst að í því felist sú hugsun að til sé eitthvert fyrsta flokks réttlæti og fyrsta flokks niðurstaða og síðan annars og þriðja flokks niðurstaða. Úrskurður Hæstaréttar er einfaldlega úrskurður Hæstaréttar og hann gildir í öllum málum. Ég held að í öllum þeim tilvikum sem málum er vísað til Hæstaréttar þá finnist þeim sem þangað vísa málum sínum mikilvæg mál vera á ferðinni og að þau eigi öll að fá þar sömu afgreiðslu þannig að ég vara við þessu. En ég ítreka það, herra forseti, að ég lít svo á að þetta sé mikilvægt innlegg í mikilvæga umræðu. Þetta tengist öðrum málum sem eru síðar á dagskránni og ég hvet til þess að á þessu verði tekið málefnalega og við fáum þegar upp er staðið niðurstöðu sem sátt getur verið um.