Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 18:51:48 (4882)

2001-02-20 18:51:48# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti ræða hv. 13. þm. Reykv. Ögmundar Jónassonar athyglisverð. Það er skemmtilegt að velta því fyrir sér vegna þess að hann komst svo að orði að stundum hefðu orðið slys, einkum þegar reynt væri að hraða frumvörpum í gegnum þingið eða frumvörpum væri hraðað í gegnum þingið.

Þegar maður lítur á þau lög sem umboðsmaður vakti athygli á, úttekt á meinbugum á lögum sem tíundaðar eru í skýrslum umboðsmanns Alþingis fyrir árin 1988--1997 að sennilega hefur ekkert af þeim frv. varðað afgreiðslu fjárlaga, heldur er hér um frv. af allt öðru tagi að ræða. Sumt kemur manni pínulítið á óvart eins og að ekki er kveðið á um það í lögum hver skuli eiga að greiða fyrir tannviðgerðir fanga. Hér er m.a. rætt um að reglur um skráningu mannanafna hafi ekki verið settar með réttum hætti. Í ljós kemur að félmrh. hefur verið ógætinn varðandi byggingarsamvinnufélög á árinu 1993 o.s.frv. En þetta eru ekki mál sem hefur verið reynt að hraða í gegnum þingið og það kemur á óvart.

Ég er á hinn bóginn sammála honum um þá niðurstöðu að hér er reynt að vinna vel að lagafrv. þó að okkur hafi orðið á og ég er sammála honum um að við hljótum að velta fyrir okkur þeirri reynslu sem við höfum orðið fyrir.