Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:08:40 (4884)

2001-02-20 19:08:40# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:08]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég var satt að segja undrandi á sumu sem hv. 9. þm. Reykv., Bryndís Hlöðversdóttir, 1. flm. þessa máls, sagði. Fyrr í dag hafði hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvík Bergvinsson, sagt að sú hugmynd, eins og hann orðaði það, að lagaráð hefði það hlutverk að setja samræmdar reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála, væri opin hugmynd og það ætti að láta verklagið móta hvernig þessari hugmynd reiddi af. Þetta var ekki góð skilgreining á lagatexta.

Nú sagði flm., hv. 9. þm. Reykv., Bryndís Hlöðversdóttir, að það yrði algerlega í höndum forsætisnefndar Alþingis að setja ráðinu starfsreglur og kveða nánar á um starfssvið þess og starfsskilyrði. Það var eins og hv. þm. vildi ekki leggja neitt fram í því, vildi ekki útskýra fyrir þingheimi hvernig flutningsmenn hugsa það mál. Mér finnst það skrýtin hugmynd við lagasetningu satt að segja ef flutningsmenn vilja ekki sjálfir gera ítarlega grein fyrir þeim hugmyndum sem eru á bak við lagatextann.