Lagaráð

Þriðjudaginn 20. febrúar 2001, kl. 19:35:47 (4896)

2001-02-20 19:35:47# 126. lþ. 73.7 fundur 76. mál: #A lagaráð# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 126. lþ.

[19:35]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað hv. þm. á við með því að auka vægi Alþingis í lagasetningu.

Ég vék að því í máli mínu í dag að venjan væri sú ef um mjög flókna löggjöf væri að ræða sem þyrfti mikinn undirbúning að alþingismenn flyttu till. til þál. þar sem einstökum fagráðherrum eftir efni máls væri falið að undirbúa löggjöf þar sem tekið yrði á þeim efnisatriðum sem segir í þáltill. Það fer síðan eftir vilja Alþingis hvort slík þáltill. er samþykkt eða ekki. Með þeim hætti hafa alþingismenn haft áhrif á það hvort ríkisstjórnir á hverjum tíma leggi fyrir Alþingi frv. sem varða sifjalög, erfðalög, skattalög o.s.frv. Eins er hægt fyrir þingmenn að koma fram með fyrirspurnir, leggja fyrirspurnir fyrir ráðherra.

En ég átta mig ekki á hvað hv. þm. meinar með því að Alþingi eigi að koma sterkar inn í undirbúning frv. Hugsar hv. þm. sér að lagaráðið semji að eigin frumkvæði frv. sem forsn. flytur? Hvað á hv. þm. við?

Hv. þm. hefur möguleika til að tala oftar. Gott væri að fá nánari útlistun á því hvað þingmaðurinn er að fara.