Niðurgreiðsla á húshitun með olíu

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:12:05 (4910)

2001-02-21 14:12:05# 126. lþ. 75.6 fundur 383. mál: #A niðurgreiðsla á húshitun með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka upp þetta mál og reyndar einnig síðustu fyrirspurn sem var þörf. Ég held að ástæða sé til að farið sé yfir þessa stöðu vegna þess að með auknum niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði með rafhitun hefur skapast ójafnvægi sem full ástæða er til að taka á. Það leiðir líka af þeirri miklu olíuverðshækkun sem dunið hefur yfir á síðustu missirum.

Ég vil bara láta þann skilning minn koma fram sem nefndarmaður í byggðanefnd þingflokkanna sem hér er vitnað til og skilaði af sér í október 1998 að þar var að sjálfsögðu verið að tala um jöfnun húshitunarkostnaðar almennt. Það var ljóst að okkar hugsun var sú að þetta yrði jafnað með almennum aðgerðum sem tækju bæði til rafhitunar, dýrra hitaveitna og að sjálfsögðu einnig til jaðartilvika af þessu tagi þar sem olía er enn á afmörkuðum svæðum notuð til húshitunar. Ég tel allar ástæður til þess að taka á nýjan leik upp eins konar styrki eða stuðning, enda ólíku saman að jafna þeim aðstæðum sem menn staddir í nú eða var fyrir 20 árum þegar þeir styrkir voru lagðir niður.