Niðurgreiðsla á húshitun með olíu

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:13:27 (4911)

2001-02-21 14:13:27# 126. lþ. 75.6 fundur 383. mál: #A niðurgreiðsla á húshitun með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að ég verði að segja að þau komi mér nokkuð á óvart. Ég taldi svo víst að ráðherra væri þeirrar skoðunar að auðvitað ættu þessi ákvæði hvort tveggja við húshitun með olíu ekki síður en rafmagn og ég tala nú ekki um að til þess hefði verið litið hversu mjög olían hefur hækkað. En ráðherra kemur hér og segir að það sé skoðun ráðuneytisins að eitthvað annað hafi verið lagt til grundvallar. Hins vegar verði málið skoðað í nefnd og því ber auðvitað að fagna að vilji er til þess að líta á málið. Staðreynd mála er sú að þó svo olíustyrkir hafi verið lagðir niður í kjölfar lækkunar og ákveðið að stuðla að notkun endurnýjanlegra orkugjafa þar sem það er hægt, þá er það ekki alls staðar hægt. Og þar sem það er ekki hægt, eins og á þeim stöðum sem hér hafa verið nefndir og menn eiga ekki annan kost en olíuna, þar er auðvitað óeðlilegt að menn séu sniðgengnir með stuðning sem þykir þó eðlilegt að þeir fái sem eru með mun betri aðstæður hvað varðar að kaupa orku fyrir upphitun íbúðarhúsnæðis síns.

Ég nefndi áðan tölurnar 222 þús. á móti 80 þús. Þetta er enginn smámunur, herra forseti. Og ég vil hvetja ráðherra til þess að líta á þessi sérstöku dæmi sem hún taldi upp og búið er að taka saman í ráðuneytinu yfir þessa örfáu aðila sem búa við þessa afarkosti og mega við það búa og að sú nefnd sem ráðherra hefur hugsað sér að láta kanna stöðu þessara mála, vinni hratt og örugglega að því að bæta stöðu þessa fólks. Það er ekki um svo marga að ræða. En mismununin er þeim mun meiri.