Niðurgreiðsla á húshitun með olíu

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:15:28 (4912)

2001-02-21 14:15:28# 126. lþ. 75.6 fundur 383. mál: #A niðurgreiðsla á húshitun með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki neinn ágreiningur í þessu máli. Mér fannst gæta nokkurs misskilnings í máli hv. þm. Ég var ekki að segja það sem mína skoðun að það ætti ekki að taka tillit til þessara aðstæðna heldur var ég einungis að koma á framfæri þeirri skoðun ráðuneytisins hvernig fjallað var um mál við undirbúning þál. sem nú gildir og hefur verið samþykkt af hv. Alþingi um byggðamál. Í þeirri nefnd var skilningurinn sá að niðurgreiðsla næði ekki til upphitunar með olíu.

Sú nefnd sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði til, þ.e. byggðanefnd þingflokkanna, leit hins vegar öðrum augum á málið. Hún horfði á þetta almennt samkvæmt mínum upplýsingum. Hins vegar verðum við að hafa í huga að staða niðurstöðu þeirrar nefndar er ekki sú hin sama og staða þál. Alþingis. En við skulum ekki vera að velta okkur of mikið upp úr þessu. Aðalatriðið er að ég held að við séum nokkurn veginn sammála um að við teljum að líta eigi á þennan þátt mála einnig og þess vegna hef ég falið nefnd sem er að störfum á vegum ráðuneytisins að fjalla um þetta tiltekna mál sem varðar upphitun með olíu. Ég hef þau markmið að áður en vetur skellur á á nýjan leik verði komin lausn á þessu máli.