Réttur til að kalla sig viðskiptafræðing

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:32:56 (4920)

2001-02-21 14:32:56# 126. lþ. 75.8 fundur 457. mál: #A réttur til að kalla sig viðskiptafræðing# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi DSigf
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Drífa J. Sigfúsdóttir):

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. varðandi BS-próf í viðskiptafræðum úr öðrum háskólum en Háskóla Íslands. Spurningarnar eru þrjár og í samhengi við lög nr. 27/1981, um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga.

Frá því að lög nr. 27/1981 voru sett hefur íslenskum háskólum fjölgað töluvert. Ef slík lög væru sett í dag þá efast ég ekki um að Alþingi hefði sett málið fram með öðrum hætti og e.t.v. almennara orðalagi. Þeir námsmenn sem stunda BS-nám í viðskiptafræðum við aðra háskóla en Háskóla Íslands búa við óvissu í þessum efnum. Þeirri óvissu getur hæstv. menntmrh. aflétt. Það er því mjög mikilvægt að fá fram skoðun hæstv. ráðherra á málinu sem jafnframt er skoðun ráðuneytisins. Upplýsinga er óskað um hvort menntmrn. telji að BS-nám í Háskólanum í Reykjavík, Viðskiptaháskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri standist kröfur ráðuneytisins. Þar sem ríkið greiðir kostnað við rekstur háskólanna er talið eðlilegt að ætla að bak við slíka rekstrarsamninga felist viðurkenning á að viðkomandi skólar standist viðkomandi kröfur um námið, magn og gæði, kennslu og aðbúnað auk annars. Ég á ekki von á öðru en að á nýju árþúsundi sé faglega og vel að verki staðið af hálfu allra sem komið hafa að málinu. Finnist meinbugir á málinu þá tel ég að þeir hljóti að koma frá menntmrn. og því ítreka ég mikilvægi þess að fá fram skoðanir hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar. Því spyr ég:

,,Telur ráðherra einhverja meinbugi á því að nemendur sem útskrifast með BS-próf frá viðskiptadeildum Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri og frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst fái að kalla sig viðskiptafræðinga?``

Til að fá hér einnig fram upplýsingar um nefnd þá sem fjallar um slíkt leyfi er önnur spurning, svohljóðandi:

,,Hverjir skipa nefnd skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 27/1981 og eftir hvað meginreglu starfar hún?``

Að lokum vil ég fá fram vilja hæstv. menntmrh. varðandi það hvort hann telji koma til greina að breyta áðurnefndum lögum til að aflétta óvissu sem nemendur sem útskrifast með slíkt próf í vor búa við. Ég tel að slík lagabreyting sé fyllilega tímabær í ljósi breyttra aðstæðna. Það er í sjálfu sér ekki verjandi að búa til fyrsta og annars flokks nám, hvorki á þessu sviði né öðru. Nemendur sem ljúka nú námi eða hafa þegar lokið slíku námi eiga rétt á svörum um gildi námsins. Í raun hefðu svörin átt að liggja fyrir við upphaf námsins. Það hlýtur að teljast eðlilegt út frá jafnræðissjónarmiði að nemendur með hliðstæða menntun njóti sambærilegra kjara.

Lokaspurningin er svohljóðandi:

,,Telur ráðherra koma til greina að breyta lögum nr. 27/1981 þannig að nemendur með BS-próf úr áðurgreindum skólum fái að kalla sig viðskiptafræðinga eins og nemendur með sambærileg próf frá Háskóla Íslands?``

Ég veit að hæstv. menntmrh. hefur lagt áherslu á að búa áðurnefndum háskólum góðan aðbúnað þannig að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en hann muni greiða farsællega úr á málinu.