Viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:11:00 (4929)

2001-02-26 15:11:00# 126. lþ. 76.1 fundur 321#B viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:11]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir þetta svar þó að ég sé í raun og veru ekki mjög kátur með það. Mér finnst alveg með ólíkindum að þrír ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn skuli hafa beitt sér í þessu máli og ekki hafi orðið meira ágengt en raun ber vitni. Að þær tölur sem ég las upp, sem er álit Ríkiskaupa, skuli vera þær upphæðir sem geri það að verkum að skipin verða send úr landi til viðgerða, litlar 6,8 millj. sem Ríkiskaup talaði um. En þegar Félag járniðnaðarmanna, félagið sjálft, óskar eftir og lætur gera úttekt hjá ráðgjafarfyrirtæki, þá kemur allt annað fram. Kom aldrei til greina hjá hæstv. ríkisstjórn að leita umsagnar hjá óvilhöllu ráðgjafarfyrirtæki til að láta skoða þetta en ganga ekki beint eftir því sem Ríkiskaup sagði og lagði til?

Hér hefur komið fram að það sé von hæstv. iðnrh. að þetta gerist ekki oftar. Herra forseti. Ákaflega lítið hefur orðið úr því starfi þriggja ráðherra við að tryggja þessa vinnu innan lands miðað við það sem fram hefur komið.