Boðað verkfall sjómanna

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:18:08 (4934)

2001-02-26 15:18:08# 126. lþ. 76.1 fundur 322#B boðað verkfall sjómanna# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er vissulega rétt sem fram kemur í máli hv. fyrirspyrjanda að það er mjög alvarlegt mál ef verkfall skellur á í næsta mánuði, sérstaklega þegar við sjáum fram á það að loðnan gæti þá að hluta synt fram hjá okkur. Ég hef átt fjölda funda með deiluaðilum á undanförnum mánuðum og seinni part sumars. Í haust störfuðu á vegum sáttasemjara annars vegar og ráðuneytisins hins vegar starfsmenn Þjóðhagsstofnunar undir forustu Þórðar Friðjónssonar við að fara ofan í þetta mál og fara yfir ýmsar forsendur og grundvallaratriði sem síðan voru kynnt málsaðilum sem því miður hefur ekki reynst í þá átt að hægt væri að kalla grundvöll fyrir því að samningar næðust.

Deilan er þessa stundina í höndum sáttasemjara og hann hefur haldið fjölda funda með deiluaðilum og mér er kunnugt um að þeir hittust daglega á hans vegum í síðustu viku. Ég hef fylgst með málinu á þessu tímabili, nú allra síðast í gegnum sáttasemjara.

Ekki er gott að segja um það eins og er hverjar líkur eru á því að samningar náist en eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er raunverulega um sama deilumálið að ræða og uppi hefur verið í síðustu deilum og þar hefur hv. Alþingi komið að því að reyna að leysa málið en deilan er enn þá sú sama. Enn þá er verið að deila um sömu málin þannig að ég sé það ekki beinlínis liggja fyrir að aðkoma hv. Alþingis mundi auka líkurnar á því að deilan leystist núna frekar en í önnur þau skipti sem það hefur verið reynt. Því hlýtur það að vera á herðum deiluaðilanna að reyna að finna lausnina og axla ábyrgðina sem þeir bera í þessu máli. Ef þeir telja að þeir þurfi atbeina hv. Alþingis þá á að beina þeim tilmælum í réttan farveg.