Andúð gegn útlendingum

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:21:59 (4936)

2001-02-26 15:21:59# 126. lþ. 76.1 fundur 323#B andúð gegn útlendingum# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp er aukin almenn umræða í samfélaginu sem ber keim vaxandi andúðar í garð þeirra sem búsettir eru hér á landi og eru ekki fæddir á Íslandi, þ.e. útlendinga sem búsettir eru hér á landi eða dvelja hér tímabundið vegna atvinnu. Nú á dögunum var m.a. viðhafnarviðtal í dagblaði einu við einn forkólfa félags sem kallar sig Félag íslenskra þjóðernissinna og í gær mátti hlýða á umfjöllun í sjónvarpsstöð þar sem rætt var við annan mann úr því félagi.

Því má halda fram, herra forseti, að útlendingaandúðin á Íslandi sé komin úr felum. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni þó að það kunni að hljóma ankannalega því að þar með er hægt að takast á við vandann. Af þessu tilefni leyfi ég mér að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort og þá hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggist grípa til til þess að spyrna við slíkri óheillaþróun.