Andúð gegn útlendingum

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:23:09 (4937)

2001-02-26 15:23:09# 126. lþ. 76.1 fundur 323#B andúð gegn útlendingum# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hv. þm. bendir á að aukin almenn umræða sé í íslensku samfélagi um ákveðna fordóma í garð útlendinga eða þeirra sem hér búa e.t.v. í skamman tíma og stunda atvinnu og hjálpa þar með íslensku samfélagi. Það er alveg rétt og ég hef sjálf orðið vör við að þarna hefur orðið ákveðin breyting. Meðal annars hefur verið rætt við forustumenn íslenskra þjóðernissinna, sem er sérstakur hópur, í fjölmiðlum núna upp á síðkastið en ég vil ekki endilega segja að hægt sé að setja samasemmerki þar á milli að það sýni fordómafyllri umræðu. Ég held að nauðsynlegt geti verið að fá slíka umræðu upp á yfirborðið og ég hygg að hv. þm. sé mér sammála um það.

Ég var nýlega á ráðstefnu í Stokkhólmi í Svíþjóð sem sænski forsrh. stóð fyrir, ég fór þangað fyrir hönd hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar. Þar var einmitt verið að ræða um fordóma í þessum efnum og hvernig ætti að bregðast við. Meðal annars var talað um netið og margt annað í því sambandi. Þar var margt athyglisvert sem við í dómsmrn. erum enn þá að skoða og ég geri ráð fyrir að félmrn. sé líka með einhvern ákveðinn undirbúning í þessu sambandi. Það verður væntanlega stór ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um þessi efni seint í sumar og ég vænti þess að menn muni hafa gagn af að sækja þá ráðstefnu.

En það er líka alveg nauðsynlegt að við séum með skýr lög um þennan málaflokk. Ég bendi á frv. til nýrra laga um útlendinga sem eru til meðferðar í allshn. og ég tel að þar gætum við tvímælalaust bætt réttarstöðu m.a. flóttamanna og annarra sem kunna að eiga um sárt að binda.