Andúð gegn útlendingum

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:25:29 (4938)

2001-02-26 15:25:29# 126. lþ. 76.1 fundur 323#B andúð gegn útlendingum# (óundirbúin fsp.), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. dómsmrh. að vissulega þurfum við að setja ný lög um útlendinga. En um það snýst fyrirspurnin ekki heldur um viðhorf Íslendinga sjálfra til þeirra útlendinga sem hér eru búsettir og hvort stjórnvöld telji það ekki í sínum verkahring að stemma stigu við þeirri útlendingaandúð sem virðist vera farin að grassera í almennri umræðu. Það hlýtur að vera verkefni stjórnvalda, m.a. í menntakerfinu með nægri fræðslu til ungmenna og barna, að takast á við þennan vanda.

Ég minni á, herra forseti, að nýlega birtust ískyggilegar niðurstöður könnunar sem gerð var um viðhorf ungs fólks til veru útlendinga á Íslandi og bara hún ein gefur tilefni til þess að strax sé gripið til aðgerða sem duga gegn þessum vágesti.