Rækjuvinnslan í Bolungarvík

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:30:04 (4942)

2001-02-26 15:30:04# 126. lþ. 76.1 fundur 324#B rækjuvinnslan í Bolungarvík# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. iðnrh., hæstv. byggðamálaráðherra, um hvað því líði að höggvið verði á þann hnút sem virðist vera á Bolungarvík varðandi vanda rækjuverksmiðjunnar Nasco. Samkvæmt blaðafregnum virðist þar orðinn djúpstæður trúnaðarbrestur og ágreiningur, annars vegar um veð einstakra veðhafa í fyrirtækinu og hins vegar um vinnulag Byggðastofnunar.

Byggðastofnun heyrir undir hæstv. ráðherra og samkvæmt fréttum í DV í dag, mánudaginn 26. febrúar, kemur fram að Bolvíkingar bíði eftir svörum um til hvaða ráða eigi að grípa. Þarna eru 50--60 manns atvinnulaus og bíða úrlausnar. Ég leyfi mér að vitna hér, herra forseti, í þetta fréttaviðtal: ,,Á meðan togast er á um fjöreggið á einhverjum illskiljanlegum forsendum þá tifar klukkan á Bolvíkinga og íbúar pakka saman föggum sínum og undirbúa brottför úr plássinu.``

Herra forseti. Ég leita svara hjá hæstv. byggðamálaráðherra. Ætlar hann að höggva á þennan hnút?