Rækjuvinnslan í Bolungarvík

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:31:50 (4943)

2001-02-26 15:31:50# 126. lþ. 76.1 fundur 324#B rækjuvinnslan í Bolungarvík# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Eins og allir hljóta að gera sér grein fyrir þá er það ekki mitt hlutverk að taka ákvarðanir um daglega stjórnun Byggðastofnunar þó að stofnunin heyri undir iðnrn. Þess vegna hefur þetta mál ekki verið á mínum borðum. Mér er hins vegar kunnugt um að Byggðastofnun hefur haft málefni Nasco til umfjöllunar. Samkvæmt mínum upplýsingum er unnið að lausn þeirra mála.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að Byggðastofnun vinnur samkvæmt ákveðnum reglum og Ríkisendurskoðun þarf að samþykkja þær reglur. Stofnunin gerir því ekkert sem ekki er í samræmi við reglur Ríkisendurskoðunar. Ég þori ekki að segja til um hvort eitthvað af þeim málefnum Bolungarvíkur sem nú eru til umfjöllunar í fjölmiðlum séu þess eðlis að Ríkisendurskoðun þurfi að koma að þeim. Ég þekki það ekki svo nákvæmlega. Ég vil fyrst og fremst segja að samkvæmt mínum upplýsingum er unnið að lausn þessara mála. Ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að atvinnuástandið í Bolungarvík er alvarlegt. Þess vegna mikilvægt að þess verði ekki langt að bíða að lausn finnist.