Viðbúnaður gegn gin- og klaufaveikifaraldri í Englandi

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:37:53 (4947)

2001-02-26 15:37:53# 126. lþ. 76.1 fundur 325#B viðbúnaður gegn gin- og klaufaveikisfaraldri í Englandi# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég átti fund í morgun með yfirdýralækni þar sem við fórum yfir þá gríðarlega alvarlegu stöðu sem nú er í Bretlandi og þá hættu sem getur stafað af því að þessi sjúkdómur berist út. Hann mun gefa út tilkynningu og aðvörun um að ferðamenn og aðrir þeir sem til Bretlands ferðast fari mjög varlega á næstunni. Hann ræður mönnum frá því að fara inn í gripahús að óþörfu og væntir þess að menn hagi ferðalögum sínum eftir því og gangist undir ákveðnar reglur þegar þeir koma heim ef út af bregður. Þessi vinna og þessi tilkynning er sjálfsagt farin út núna sem aðvörun frá yfirdýralækni um þá miklu hættu sem stafar af því að taka með sér vörur eða ganga óvarlega um gripahús. Það ber að fara varlega og ég hygg að Íslendingar muni taka þeim tilmælum og fara eftir þeim.