Útlán bankanna til einstaklinga

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:42:51 (4951)

2001-02-26 15:42:51# 126. lþ. 76.1 fundur 326#B útlán bankanna til einstaklinga# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Út af lokaorðum hv. þm. vil ég segja að þrátt fyrir þessa miklu aukningu hvað varðar yfirdráttarlán þá eru vanskil með minnsta móti. Það er kannski gleðiefnið í þessu öllu saman að vanskil hafa farið minnkandi.

Ég get sagt að mér varð líka illt við þegar ég sá hversu mikil aukning hafði orðið í þessum dýru lánum. Það er áhyggjuefni. Því hefur verið haldið fram að bankarnir séu mjög frjálslegir í afgreiðslu sinni á yfirdráttarlánum. Ég hef spurst fyrir um hvort svo sé og tel nú kannski að það sé eitthvað orðum aukið.

Ég vil halda því til haga að vanskil hafa farið minnkandi og svo get ég sagt frá því einnig að í það styttist að lagt verði fram á Alþingi nýtt frv. til vaxtalaga. Þar munu koma fram ýmsar breytingar þó fyrst og fremst sé um rammalöggjöf að ræða. Ég tel að það geti svarað ýmsum spurningum þó ég ætli ekki að fara frekar út í það núna.