Útlán bankanna til einstaklinga

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:44:25 (4952)

2001-02-26 15:44:25# 126. lþ. 76.1 fundur 326#B útlán bankanna til einstaklinga# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér finnst hæstv. viðskrh. ekki hafa tiltakanlega miklar áhyggjur af hinni erfiðu skuldastöðu heimilanna. Hæstv. ráðherra ber því við að vanskilin séu með minnsta móti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa ekki vanskilin breyst í yfirdráttarlán? Er það ekki skýringin á því að vanskilin hafi minnkað, að góðærið og mikla neyslu hjá heimilunum sé einmitt að finna í þessum yfirdráttarlánum?

Sú var tíðin að framsóknarmenn höfðu áhyggjur af skuldastöðu heimilanna. Ég man eftir því að hæstv. landbrh. talaði oft í ræðustól um að líf, heill og hamingja þúsunda fjölskyldna lægi við að á skuldamálum heimilanna væri tekið. Nú hefur ráðherrann og Framsfl. greinilega engar áhyggjur af erfiðri skuldastöðu heimilanna. Ráðherrann gæti auðvitað beitt sér með ýmsum hætti til að bæta þessa erfiðu skuldastöðu og unnið gegn þeirri okurlána- og hávaxtastefnu sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Ég kalla eftir frekari viðbrögðum, herra forseti, hjá hæstv. ráðherra. Auðvitað er tilefni til þess að taka þessi mál öðrum tökum í þinginu og kalla einnig til hæstv. forsrh. til að svara fyrir þessi mál.