Viðgerðir á tveim varðskipum erlendis

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:47:03 (4954)

2001-02-26 15:47:03# 126. lþ. 76.1 fundur 327#B viðgerðir á tveim varðskipum erlendis# (óundirbúin fsp.), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Skipasmíðaiðnaður og málmiðnaður á Íslandi á í vök að verjast. Nú er svo komið að fram undan er verkefnaskortur og jafnvel atvinnuleysi í þeirri atvinnugrein. Það er því hart undir því að búa að við séum að missa frá okkur verkefni úr landi fyrir aðeins örfáar milljónir. Enn harðara er undir því að búa að fá síðan til sín upplýsingar sem sýna að verkefnið hefði betur verið komið á Íslandi með tilliti til upphæðar á tilboðum í útboðum.

Ég beini því orðum mínum til hæstv. dómsmrh. sem fer með ábyrgð á varðskipum og Landhelgisgæslu og var í forsvari fyrir þeim málum þegar við misstum varðskipið núna frá okkur til Póllands. Ég vil því spyrja ráðherrann vegna þeirrar umræðu sem fór fram fyrr í dag:

Hvaða ráðstafanir gerði hæstv. dómsmrh. til að halda þessum verkefnum í landinu innan þeirra marka sem hægt er að leyfa sér og brjóta hvergi evrópska efnahagssamninginn sem við eigum að sjálfsögðu að standa við?

Telur ráðherrann að Íslendingar nýti sér að jafnaði þau svigrúm sem til eru þegar varðskipin eru annars vegar til þess að létta Íslendingum tilboðsgjöfina? Megum við eiga von á svipuðum vinnubrögðum og hér hafa farið fram þegar kemur að hinu stóra verkefni, smíði nýs varðskips? Verður þá aðeins stuðst við útreikninga embættismanna ríkisins eða verður þess gætt að þar sé tryggilega frá því gengið að við missum ekki stórverkefni frá okkur vegna þess að ekki hefur verið nógu vel að því gætt að skoða kostnaðartölur?