Viðgerðir á tveim varðskipum erlendis

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:51:33 (4956)

2001-02-26 15:51:33# 126. lþ. 76.1 fundur 327#B viðgerðir á tveim varðskipum erlendis# (óundirbúin fsp.), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. þau svör sem hafa komið fram.

Ég hygg að ekki sé rétt að vandinn liggi hjá íslenskum skipasmíðastöðvum. Ég hef heimsótt tilboðsgjafa og skipasmíðastöðvar í þessu máli og ég veit að þar var fyllilega faglega að því staðið. Ég veit hins vegar líka að menn nýttu sér ekki marga þá möguleika sem til eru innan samningsins um EES til að létta þetta mál, og kem ég að því seinna því að ég mun leggja fram tillögu um útboðsstefnu ríkisins sem gætir að hagsmunum íslensks iðnaðar. Við skulum ekki gleyma því að hvergi er tekið tillit til þess vegna einmitt EES-samningsins, hins þjóðhagslega ávinnings sem felst í því að halda vinnunni í landinu, efla skipasmíðaiðnaðinn, að fá skattgreiðslurnar inn í landið, að efla fyrirtækin, m.a. í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri. Fram hjá öllum þessu verðum við að ganga vegna EES-samningsins.

Að mínu mati var ekki nýttur allur sá sveigjanleiki sem hefði verið hægt til að halda skipunum og atvinnunni hér í landinu.