Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:54:56 (4958)

2001-02-26 15:54:56# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta utanrmn. um tillögu til þál. um fullgildingu samnings milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Hauk Jóhannesson og Högna S. Kristjánsson frá utanríkisráðuneyti, Benedikt Bogason og Þorstein A. Jónsson frá dómsmálaráðuneyti og Bjarneyju Friðriksdóttur og Ragnar Aðalsteinsson frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar fyrir Íslands hönd á samningi sem Evrópubandalagið og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um við miðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Fullgilding samnings þessa er hluti af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningi um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna sem fullgiltur var 26. maí 2000.

Meiri hlutinn vekur athygli á nauðsyn þess að fram fari ítarleg skoðun á löggjöf er varðar heimild til fingrafaratöku af hælisleitendum, einkum varðandi aldursmörk einstaklinga og varðveislu gagna.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt en Einar K. Guðfinnsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Lára Margrét Ragnarsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið skrifa Jón Kristjánsson, Vilhjálmur Egilsson, Árni R. Árnason, Einar K. Guðfinnsson með fyrirvara, Kristinn H. Gunnarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir með fyrirvara.