Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:57:18 (4959)

2001-02-26 15:57:18# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:57]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta utnarmn. sem ég skipa í 412. máli þingsins sem er till. til þál. um fullgildingu samnings milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi.

Ég veit ekki hversu nákvæmlega þessi langi titill, herra forseti, útskýrir málið fyrir mönnum en í reynd er það á ferðinni að tillagan og samkomulagið gengur frá tengingu Íslands og Noregs við framkvæmd svonefnds Dyflinnarsamnings og sá samningur er birtur hér sem fskj. með þáltill. Það er allmikið plagg og ég veit ekki hversu nákvæma skoðun út af fyrir sig sá samningur hefur fengið. Vel hefði mátt eyða meiri tíma í að fara ofan í hann, þar á meðal í hv. utanrmn., en fyrir því að það var ekki gert liggja m.a. þær ástæður að þetta mál er mjög seint fram komið. Nokkuð var liðið á þennan mánuð þegar mælt var fyrir því og nú er boðað að það sé algjörlega bráðnauðsynlegt að málið fái afgreiðslu, nánast á þessum klukkustundum, svo tími vinnist til þess að ganga frá fullgildingarskjölum og koma þeim til vörsluaðila samningsins fyrir mánaðamótin febrúar/mars. Verði það ekki mundi það væntanlega valda töfum eða vandræðum gagnvart því að Ísland yrði aðili að Schengen-samningnum svonefnda 25. mars nk. Það er nefnilega hin hliðin á þessu máli, herra forseti. Þetta er nátengt og í raun og veru afsprengi þess að tekin hefur verið sú pólitíska ákvörðun af meiri hlutanum sem hér ræður ferðinni að Ísland gerðist aðili að svonefndu Schengen-samstarfi.

[16:00]

Herra forseti. Ég verð að leyfa mér að koma því á framfæri að ég lýsi miklum vonbrigðum með að hæstv. utanrrh. skuli þurfa að vera fjarstaddur afgreiðslu þessa máls. Ég hafði hugsað mér að eiga við hann orðastað. Í öllu falli teldi ég til bóta að hæstv. starfandi utanrrh. sem væntanlega er einhver --- ég geri ekki ráð fyrir að landið sé utanríkisráðherralaust um þessar mundir --- mundi a.m.k. láta svo lítið og vera hér viðstaddur umræðuna og gæti þá borið eftir atvikum einhver skilaboð til hæstv. utanrrh.

Mér finnst einnig með öllu ástæðulaust að forgangsmál ríkisstjórnarinnar séu rædd dögum oftar að henni algerlega fjarverandi. Það eru 12 ráðherrar í ríkisstjórninni ef ég man rétt, ég held að ég muni það rétt, er það ekki örugglega? Sennilega gæti ég nafngreint alla ef mikið lægi við. En það er ekki vegna þess að ég sjái þá svo oft í þingsalnum, herra forseti, sem ég kannast við þá. Það er sko alls ekki vegna þess. Ég hlýt að láta óánægju mína með þessa frammistöðu koma í ljós og mér þætti vænt um ef hæstv. forseti kannaði hvar hæstv. starfandi utanrrh. er á vegi staddur eða þá ef a.m.k. einhver annar fulltrúi ríkisstjórnarinnar gæti látið svo lítið að vera hér viðstaddur. Það er nefnilega þannig að ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að fá þetta mál afgreitt og hlýtur þá að leggja eitthvað á sig til að koma því fram.

(Forseti (GÁS): Vegna orða hv. þm. er það þannig, eins og hann raunar gat um sjálfur, að hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson er með fjarvistarleyfi í dag. Raunar er staðgengill hans, sem er hæstv. forsrh., sömuleiðis með fjarvistarleyfi þannig að úr vöndu er að ráða.)

Hver ber ábyrgð á málinu, herra forseti? Er hæstv. utanrrh. erlendis eða er hann með fjarvistir innan lands?

(Forseti (GÁS): Málið kemur úr nefnd og er á ábyrgð þingsins.)

Herra forseti. Þetta er þáltill. og aðeins tvær umræður eru um slík mál og það geta verið fullkomlega gildar ástæður til þess að hafa hæstv. ráðherra viðstadda til að svara fyrir mál. Þeir bera ábyrgð á þeim og framkvæmd þeirra eftir sem áður.

Herra forseti. Ég tel mig geta sýnt fram á og mun reyna að gera það á eftir að í þessum pappírum eru hlutir sem eru í rauninni þannig vaxnir að það jaðrar við að það verði að segja eins og er að þetta mál hafi meira og minna verið kynnt mönnum og haldið að mönnum á röngum forsendum að mínu mati í gegnum allt ferlið frá því að fyrst var farið að boða það trúboð hér, sérstaklega af hálfu hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar, að það væri einboðið fyrir Ísland að gerast aðili að Schengen-samningnum svonefnda.

(Forseti (GÁS): Vegna orða hv. þm. um viðveru ráðherra hér, hann gat þess að til greina kæmi að kalla til aðra ráðherra sem tengdust málinu með einhverjum hætti. Eru það einhverjir tilteknir hæstv. ráðherrar sem hv. þm. er að vísa til, þannig að forseti gæti orðið honum að liðsinni í þeim efnum?)

Ég ætla ekki að gera úr þessu, herra forseti, meiri vandræðagang en efni standa til. En fyrsta ósk mín hefði auðvitað verið sú að hæstv. utanrrh. hefði verið hér viðstaddur, í hans stað þá staðgengill hans, ef annar gegnir fyrir hæstv. utanrrh. Í öllu falli að einhver fulltrúi ríkisstjórnarinnar hefði verið viðstaddur umræðuna. Ef það er jafnmikið kappsmál og látið er að liggja að drífa þetta mál áfram, þá finnst mér, herra forseti, síst til of mikils mælst að hæstv. ríkisstjórn sé þá hérna viðstödd í einhverju líki, þó ekki sé nema einn af þessum 12 ráðherrum. Eigum við þá ekki að einfalda málið með því að segja að mér sé alveg nákvæmlega sama hver þeirra það er. En ég fer fram á að það verði eins og eitt stykki ráðherra, herra forseti, viðstaddur umræðuna. Mér finnst það fyrir neðan allar hellur að boðið sé upp á að stórmál af þessu tagi eigi að ræðast og afgreiðast og lögð á það sérstök áhersla af hálfu ríkisstjórnarinnar að svo sé gert og síðan gufar hún öll upp úr þingsalnum eins og hendi sé veifað um leið og dagskrármál taka við. Ekki fleiri orð um það.

Herra forseti. Það er sem sagt þannig að aðild okkar að hinum svonefnda Dyflinnarsamningi og öllu því sem honum eða því ferli tengist er auðvitað nátengd aðild okkar að Schengen-samstarfinu. Ég geri ekki ráð fyrir að menn hefðu verið með tillögur uppi um það að við gerðumst aðilar að þessu Dyflinnarsamkomulagi nema vegna þess eingöngu að ákveðið var á Alþingi síðasta vor að Ísland yrði aðili að Schengen-samstarfinu svonefnda.

Ég hef áður látið það koma fram, herra forseti, að það er auðvitað ákaflega bagalegt að þessi mál skuli vera svona seint á ferðinni eins og raun ber vitni, að stórmál af þessu tagi komi hér inn og því fylgi orðsending frá framkvæmdarvaldinu til Alþingis, að það sé alveg nauðsynlegt að umfjöllun um málið ljúki og það nái afgreiðslu í sama mánuði helst innan tveggja vikna frá því að mælt er fyrir því á þinginu. Mér finnst dálítið merkilegt að hlutirnir skuli þurfa að bera svona að. Hér er nefnilega um að ræða mjög stórt mál. Í heild sinni er þessi pakki mjög stór, þ.e. aðild Íslands að annars vegar Schengen-samstarfinu og því upplýsingakerfi sem því tengist, SIS-upplýsingakerfinu svonefnda, og hins vegar aðild okkar að Dyflinnarsamningnum og því upplýsingakerfi sem þar á að byggja upp, aðskilið, sjálfstætt, umfangsmikið upplýsingakerfi, svonefnt EURODAC-kerfi. Þetta eru til samans mjög stórir og áhrifamiklir hlutir, herra forseti, og í rauninni miklar ákvarðanir sem verið er að taka um að tengja Ísland inn í þetta allt saman.

Rétt er að menn átti sig á því að hér á að fara að afgreiða að Ísland gerist aðili að mjög viðamiklu kerfi skráningar á persónuupplýsingum í sjálfstæðan gagnagrunn, svonefndan EURODAC-gagnagrunn eða EURODAC-kerfi. Þessu þurfa síðan að fylgja og munu væntanlega eiga að tengjast lagabreytingar sem m.a. varða málefni útlendinga og lög, annaðhvort sérlög sem þá verða sett eða ákvæði sem sett verða inn í einhver viðeigandi lög um heimildir t.d. til þess að taka fingraför af öllum þeim sem sækja um hæli eða hafa stöðu hælisbeiðenda í þeim skilningi sem útlendingar í landi okkar á komandi árum. Sú fingrafarataka verður sjálfvirk, þ.e. hún gerist sjálfkrafa ef ákvæði samningsins og þá til viðeigandi laga sem því koma til með að tengjast ná fram að ganga, þannig að um verður að ræða sjálfvirka skráningu slíkra upplýsinga í kjölfar þessa kerfis. Í því kerfi verða síðan slíkar upplýsingar miðlægar, þannig að þær verða aðgengilegar fyrir öll aðildarríki svæðisins, varðveittar í a.m.k. tíu ár. Hér er því aftur á ferðinni, herra forseti, gríðarlega viðamikil rafræn skráning persónuupplýsinga og ég er ekki viss um, herra forseti, að allir hafi áttað sig á því hversu miklar breytingar eru í raun og veru að verða á stöðu Íslands í þessum efnum hvað þetta varðar, þ.e. aðild okkar að þessu SIS-kerfi, Schengen-upplýsingakerfinu annars vegar og síðan þessu EURODAC-kerfi, um hælisbeiðendur hins vegar, fingrafaraskráningu o.s.frv.

Til viðbótar þessu, herra forseti, er mönnum vonandi að verða það smátt og smátt ljóst að aðild Íslands að Schengen-samstarfinu og þessu batteríi öllu saman var auðvitað annað og meira en bara spurning um að varðveita hið norræna vegabréfasamband. Í reynd þýðir þetta að Ísland er þarna að gerast aðili að þegar orðnum stofnunum Evrópusambandsins sem Schengen-samstarfið og Schengen-upplýsingakerfið er. Á grundvelli Amsterdam-samninga Evrópusambandsríkjanna verður Schengen-upplýsingakerfið og Schengen-samstarfið sem slíkt innlimað í Evrópusambandið. Þetta verður hluti af stofnanakerfi Evrópusambandsins og lýtur stjórnsýslu þess með beinum hætti og Ísland er þar af leiðandi á grundvelli sérsamninga sinna við Schengen-kerfið að gerast aðili að þessum stofnunum Evrópusambandsins. Því má segja, og ég held að það sé alveg brúkleg íslenska, að við séum að fara bakdyramegin inn í Evrópusambandið að þessu leyti. Það er áhugavert og athyglisvert í pólitísku samhengi, herra forseti, að það er alveg sérstakt áhugaefni Framsfl. að koma okkur þessa leið, koma okkur inn um þessar bakdyr á Evrópusambandinu að þessu leyti, og reyndar fleiri flokka sem styðja þetta hér. Sumir gera það með semingi eins og einn og einn sjálfstæðismaður, er með einhverjum böggum hildar yfir þessu en láta sig hafa það samt og síðan skilst mér og miðað við nefndarálit hér að fulltrúar Samfylkingarinnar geri það einnig.

Þetta er áhugavert vegna þess að það er í sjálfu sér tímamótaákvörðun, herra forseti, að Ísland gerist með þessum hætti aðili að stofnanakerfi Evrópusambandsins sem slíku. Þessi nálgun er ekki sambærileg þeirri sem fólgin er í EES-samningunum af því að EES-samningurinn er tveggja stoða og hann byggir á stofnunum EES-megin til mótvægis við stofnanir Evrópusambandsins hinum megin og samráði þar í milli eins og menn þekkja. Hér eru nýir hlutir á ferðinni, ákaflega athyglisverðir í pólitísku samhengi, og væri t.d. áhugavert að slatti af varaformannskandídötum Framsfl. sem hafa tjáð sig um þessi mál létu nú í sér heyra um þetta. Er þetta þeirra Evrópulína að Ísland eigi að fara bakdyramegin inn í hverja stofnun Evrópusambandsins á fætur annarri? Hér er það að gerast, hér er það lagt til. Hv. þm. Jón Kristjánsson var að mæla fyrir meirihlutaálitinu úr utanrmn. Um hvað? Um að við gerumst aðilar að Dyflinnarsamningnum og EURODAC-upplýsingakerfinu. Hvaða framtíð bíður þess? Jú, innan fjögurra ára verður það innlimað í Evrópusambandið. Það liggur fyrir í samningsforsendunum. Það á að heita svo að þetta sé sjálfstætt í dag, þetta sé Dyflinnarsamningurinn og hið sjálfstæða EURODAC-upplýsingakerfi sem honum tengist, en fyrir liggur að þetta mun fara sömu leið og Schengen, innlimast í Evrópusambandið og verða hluti af stofnanakerfi þess. Þar með er Ísland að gerast aðili að hverri slíkri Evrópusambandsstofnuninni á fætur annarri með öðrum hætti en gerist í gegnum EES-samninginn af því að þarna eru engar sjálfstæðar stofnanir okkar megin heldur erum við í raun og veru aðilar að þessum Evrópusambandsstofnunum, tökum þátt í starfi þeirra að öllu leyti nema því að dreginn verður hauspoki yfir menn rétt á meðan Evrópusambandið tekur ákvarðanir þarna inni því að þá mega menn ekki vera við borðið formlega séð. Þetta er aðild bakdyramegin sem blasir við okkur og kann að verða í ríkari mæli, ef svo heldur sem horfir, miðað við þann pólitíska vilja manna sem hér birtist okkur.

Þessa hluti, herra forseti, held ég að eigi að ræða alveg eins og þeir eru og það á ekkert að fara í neinar felur með það á hvaða grundvelli þessi aðild okkar er hugsuð og uppbyggð. Það er svona. Því vakna, herra forseti, auðvitað ýmsar stjórnskipulegar spurningar í þessum efnum. Það var t.d. áhugavert þegar þátttaka okkar í Schengen var til umræðu í fyrra, þá lagði hæstv. utanrrh. sérstaklega lykkju á leið sína til þess að róa menn í þeim efnum að hann teldi að þetta væri allt í góðu lagi varðandi stjórnarskrána, aðild okkar að Schengen á þessum grunni. Sami maður og hafði haft miklar efasemdir um á sínum tíma, að vísu nokkrum árum fyrr, að EES-samningurinn sjálfur stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég held að ég fari þar rétt með og halli ekki á hæstv. utanrrh. þó ég rifji það upp, að það mun hafa verið ein meginröksemdin sem hann færði fram fyrir hjásetu sinni í því máli á sínum tíma, það væru efasemdir um að EES-stoðkerfið eða stofnanakerfið og aðild okkar að því og að ákvarðanatökuferli í því gengi upp gagnvart stjórnarskránni. En hér er gengið skrefinu lengra. Það er alveg ljóst. Það er alveg ljóst að hér er gengið skrefinu lengra vegna þess að þarna er ekki um neitt tveggja stoða kerfi að ræða heldur beina aðild okkar í gegnum sérsamninga að Evrópusambandsstofnun.

Herra forseti. Í öðru lagi, þær spurningar sem vakna kannski hvað stærstar fyrir utan spurninguna um þessa pólitísku og stjórnskipulegu stöðu og hvort við eigum þarna erindi sem slíkt, og ég kem nánar á eftir að spurningu um kostnað og fleiri slíka þætti, eru þær spurningar tengjast meðferð persónuupplýsinga og persónuvernd sem auðvitað hafa fengið allt of litla athygli í þessari umræðu. Það er þessi ,,laissez faire`` eða nauðhyggjunálgun sem oft lætur á sér kræla í umfjöllun um þessa hluti, að þetta sé eitthvað sem við bara verðum að taka eins og að okkur er rétt. Búið sé að taka pólitíska ákvörðun um að við ætlum að gerast aðilar að Dyflinnarsamningnum og EURODAC-kerfinu eða Schengen eða einhverju öðru og þá verði menn bara að taka því eins og það kemur. En er það boðlegt? Ætlum við ekki að hafa einhverja sjálfstæða meðvitund um það hvort hlutir sem við erum að veita blessun okkar yfir á þinginu eða lögtaka ganga upp miðað við þær kröfur sem við gerum um þessi efni? Og það liggur fyrir, herra forseti, að meðferð persónuupplýsinga í báðum þessum kerfum, Schengen-upplýsingakerfinu og EURODAC-kerfinu, hefur verið harðlega gagnrýnd og færð hafa verið fram sjónarmið fyrir því að þarna sé meðferð persónuupplýsinga og persónuvernd ábótavant, að mannréttindi flóttamanna verði fyrir borð borin með þessum hætti í Evrópu. Ekki ómerkari aðilar en flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. gagnrýnt þetta og mannréttindasamtök bæði hér innan lands og erlendis. Og það hefur meira að segja sjálft eftirlitskerfi Schengen gert og er hluti af því að róa menn niður gagnvart þessari gríðarlega víðtæku skráningu persónuupplýsinga sem á að fara að eiga sér stað, sérstaklega í Schengen-upplýsingakerfinu sem verður ein sú viðamesta í sögunni. Það skyldi nú ekki vera að fara yrði til Pentagon til að finna viðameiri rafræna skráningu persónuupplýsinga, ef hún yfir höfuð fyrirfinnst annars staðar á byggðu bóli meiri en sú sem þarna á að verða þar sem milljónir á milljónir ofan verða skráðar inn í þetta kerfi, það liggur alveg fyrir, og persónuupplýsingar um menn geymdar í því.

[16:15]

Það er stórkostlega mikið umhugsunarefni í þessu sambandi, mannréttindasamtök hafa bent á það, að þarna eru menn skráðir sjálfvirkt án þess að þeir séu grunaðir um saknæmt athæfi eða efnislegar ástæður af því tagi liggi til grundvallar því að færa inn upplýsingarnar. Hælisbeiðandi, ríkisfangslaus maður eða flóttamaður sem flýr til að bjarga lífi sínu og sækir um hæli í einhverju landi er ekki sjálfkrafa grunaður um saknæmt athæfi, er það? Nei, auðvitað ekki. En hann er skáður þarna sjálfvirkt inn og tekin fingraför af öllum hans tíu fingrum, ef hann heldur þeim enn þá, og þau geymd í tíu ár. Þó viðkomandi sé aldrei í þessu ferli grunaður um nokkuð misjafnt þá verður þetta samt gert svona. Í þessu tilliti felst líka ákveðin mismunun milli fólks í þessari stöðu og öðrum útlendum ríkisborgurum eða ríkisfangslausum mönnum í landi því sem í hlut á.

Herra forseti. Það eru ýmis tilefni til að fara yfir þessi mál og ég hlýt að endurtaka að ég sakna þess að hér skuli ábyrgðaraðilar málsins, hæstv. ráðherrar, ekki mættir til að svara fyrir það. Það er auðvitað eftir öðru að málinu sé hent í þingið, því skipað að afgreiða það á tíu dögum eða svo og síðan láti þeir sig hverfa og ætli vinnumaurunum að puða við að afgreiðslu þess fyrir sig. Þeir telja sig hafa annað merkilegra að gera en að sinna þingskyldum sínum og mæta eins og við hin.

Það er reyndar mjög athyglisvert, herra forseti, hversu víða sú lenska lætur á sér kræla að hæstv. ráðherrar, og því ofar sem þeir eru í goggunarröðinni, telja sig vera yfir það hafna að mæta á sömu stöðum og aðrir almennir stjórnmálamenn. Þar má t.d. nefna umræðuþætti í sjónvarpi o.s.frv. eins og frægt er.

Herra forseti. Sami minni hluti utanrmn. og hér talar, þegar aðild Íslands að Schengen-samstarfinu var til umfjöllunar á Alþingi sl. vor, lagðist gegn samstarfinu. Til vara var reyndar sett fram sú tillaga í nefndaráliti að þó að Ísland kynni að staðfesta samninginn fyrir sitt leyti þá yrði jafnframt tilkynnt til vörsluaðila að Ísland mundi fresta framkvæmdinni eða áskyldi sér rétt til að fresta framkvæmdinni. Enn standa að mínu mati veigamikil rök, herra forseti, fyrir því að svo verði gert.

Ég vísa, hvað varðar almennan rökstuðning í þessu máli, til nál. minni hlutans frá síðasta þingi, 206. máli 125. löggjafarþings sem birt er sem fylgiskjal I með nál. þessu.

Þá ætla ég, herra forseti, að ræða aðeins um norræna vegabréfasambandið. Ég sakna hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar enn meira þegar kemur að því, ófáar sennurnar höfum við átt um norræna vegabréfasambandið. (Gripið fram í: Þú saknar hans gríðarlega.) Ég sakna hans alveg gríðarlega, það verð ég að viðurkenna, í þessu samhengi. Upphaf þess máls, herra forseti, er að fyrir um hálfum áratug, nánast upp á dag, 27. febrúar 1995, gáfu norrænu forsætisráðherrarnir á fundi hér í Reykjavík, þegar Norðurlandráð fundaði hér, yfirlýsingu um að Norðurlöndin mundu fylgjast að og hafa sameiginlega afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu eða þess að standa utan við það til að varðveita norræna vegabréfasambandið. Nákvæmlega svona var þessi yfirlýsing orðuð í þýðingu löggilts skjalaþýðanda sem ég aflaði í fyrra, svo hrátt sem það var hafði yfirlýsingin aldrei verið þýdd á íslensku. Svona var þessi yfirlýsing og maður tók hana bókstaflega og hugsaði sem svo: Nú gott og vel, það sem til stendur er að Norðurlandaþjóðirnar varðveiti norræna vegabréfasambandið, annaðhvort með því að allir verði þátttakendur í Schengen eða allir standi fyrir utan það.

Síðan kom það smátt og smátt á daginn, herra forseti, að það vill hæstv. utanrrh. ekki kannast við. Menn fóru að túlka yfirlýsinguna þannig að það ætti bara að taka mark á helmingnum af henni, bara fyrri helmingnum, þeim möguleika að Norðurlöndin varðveittu norræna vegabréfasambandið innan Schengen. Það var látið eins og hitt hefði aldrei komið til greina. Hæstv. utanrrh. hefur spurt sem svo: Finnst mönnum trúlegt að hin Norðurlöndin hefðu fært þá fórn, þ.e. ESB-ríkin, Danmörk, Finnland og Svíþjóð, að standa utan Schengen til þess að passa upp á vegabréfasambandið við Noreg og Ísland? Var þá aldrei neitt að marka það sem þeir sögðu í Reykjavík 27. febrúar 1995? Þar voru þeir kostir settir upp nákvæmlega jafngildir í yfirlýsingu forsætisráðherranna.

Þetta er það fyrsta, herra forseti, sem nauðsynlegt er að liggi fyrir. Þetta eru staðreyndir málsins. Það er algjörlega kristaltært. Morgunljóst, eins og Pétur Einarsson, fyrrv. flugmálastjóri, hefði orðað það.

Í öðru lagi er rétt að hyggja að því hvernig þetta hefur tekist. Hefur tekist að varðveita norræna vegabréfasambandið? Gengur það vel? Stendur það jafn vel með aðild okkar að þessu gríðarlega persónuupplýsingakerfi og þeim skuldbindingum sem við tökum á okkur, að verða ytri landamæri Evrópusambandsins í norðvestri á móti Grikklandi í suðaustri o.s.frv.?

Herra forseti. Hið hlálega kemur í ljós að hér er ekki um neitt nema orðaleik að ræða. Ekkert annað en orðaleik. Fyrir það fyrsta er rétt að hafa í huga að norræna vegabréfasambandið, svo ágætt og gagnmerkt sem það var og að mínu mati framsækin ákvörðun Norðurlandanna og skínandi góð við þær aðstæður sem við höfðum hér í samskiptum okkar, var aldrei til þess ætlað að menn tækju það of bókstaflega í þeim skilningi að vegabréf hyrfu þar með úr sögunni. Þar getur hver svarað fyrir sig en sá sem hér stendur hefur sjálfsagt farið hundrað sinnum til hinna Norðurlandanna og man ekki eftir öðru en hafa tekið með sér vegabréfið hvert einasta skipti. Ég held þó að kannski hafi ég farið vegabréfslaus til Færeyja eða Grænlands því þær ferðir hefur stundum borið óvænt að. Þetta hefur hins vegar haft það í för með sér, þegar menn eru í rólegheitum, ekki þurft að vera að draga upp vegabréfið og það hefur nægt að segja að menn kæmu frá Íslandi eða eitthvað slíkt.

Hins vegar er hér ólíku saman að jafna. Það er nauðsynlegt að undirstrika að þær aðstæður sem voru á sínum tíma í samskiptum Norðurlandanna að þessu leyti og hafa lengst af verið, í þeim skuldbindingum sem fólgnar voru í þessu og því einu, að Norðurlöndin voru opin fyrir ríkisborgara hvers annars án vegabréfa, eru gjörólíkar þeim sem felast í aðild að Schengen-samningnum og Dyflinnarsamningnum. Þetta eru algjörlega ósambærilegir hlutir. Þeir fela í sér allt annað. Það var t.d. ekki þannig að sömu bönn væru lögð við persónueftirliti milli Norðurlandanna með norræna vegabréfasambandinu líkt og nú verður gert með Schengen, af því það er með pósitífum hætti verið að banna persónueftirlit á landamærum þegar í hlut eiga ferðalög innan Schengen-svæðisins. Málið snýst um að mönnum verði óheimilt, nema bera við þjóðaröryggi eða hættu á röskun á allsherjarreglu og friði og öðru slíku, að halda uppi persónueftirliti.

Þá ber svo kostulega við, herra forseti, eins og áður sagði, að í umræðunni á hinum Norðurlöndunum er ekki gleði yfir því að norræna vegabréfasambandinu sé borgið inni í Schengen. Þar er rætt um þörfina á að taka upp ný persónuskilríki og þá hlálegu staðreynd að í raun verða ferðalög innan Norðurlandanna, svo maður tali nú ekki um annars staðar innan Schengen svæðisins, mun erfiðari án vegabréfa eftir þessa samninga en áður.

Hvernig stendur nú á þessu, herra forseti? Jú, það er vegna þess að í stað persónueftirlits á landamærum er gert ráð fyrir því að persónueftirlit aukist annars staðar í samfélaginu. Það verði t.d. reglan, en ekki undantekningin, að þegar ferðamenn bóka sig inn á hótel, tjaldstæði, taka bílaleigubíl o.s.frv., þá þurfi þeir að gera grein fyrir sér og m.a. sanna þjóðerni sitt. Þá verða ekki tekin gild önnur skilríki en þau sem sýna þjóðerni viðkomandi. Þetta hefur t.d. leitt til þess að í Svíþjóð stefnir í að tekin verði upp ný persónuskilríki, sérstök Schengen-nafnskírteini eða persónuskilríki, sem eru að sjálfsögðu ígildi vegabréfa. Þau eru ætluð þeim sem hyggja á mikil ferðalög innan hins nýja Schengen-svæðis. Ella munu þeir lenda í endalausum vandræðum.

Hver er staðan á Íslandi? Þegar að er spurt koma í fyrstu einhverjar vöflur á menn. Menn vilja lítið um þetta ræða. Það hefur farið furðulega lítið fyrir því að dómsmrn. eða íslenska utanrrn. hafi upplýst um þessa hlið mála. Hvað stendur til á Íslandi? Samkvæmt svörum embættismanna úr dómsmrn. fyrir utanrmn. stendur a.m.k. ekki til að taka upp á nýjan leik íslensk Schengen-nafnskírteini eða persónuskilríki. Hvað gerist þá? Þá verður enn mikilvægara en nokkru sinni fyrr að hafa með sér vegabréf á öllum ferðalögum erlendis. Vegabréfin verða þá einu skilríkin sem duga sem þjóðréttarleg skilríki, sönnun þess hvers lands ríkisborgari viðkomandi aðili er. Ergo: Niðurstaðan verður sú að þau ferðalög sem þó voru áður möguleg innan Norðurlandanna án vegabréfs verða það tæpast eftir aðild okkar að Schengen, eftir að hin Norðurlöndin, a.m.k. Svíþjóð, sennilega líka Danmörk og jafnvel fleiri, taka upp sérstök Schengen-persónuskilríki.

Hver er þá orðin uppskeran af öllu þessu brölti, herra forseti? Hver er þá hinn mikli heyfengur í hlöðu Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. utanrrh. sem lagði í þennan leiðangur undir því yfirskini að með því mundu menn bjarga norræna vegabréfasambandinu? Okkur er troðið inn í þessar Evrópusambandsstofnanir undir því yfirskyni að með því sé verið að bjarga norræna vegabréfasambandinu en útkoman er sú að Íslendingar verða fremur en áður að hafa með sér vegabréf á ferðalögum sínum, einnig innan hinna Norðurlandanna, því annars lenda menn í vandræðum. Reyndar spái ég því að innan tíðar hljóti menn að fara að ræða sömu lausn á þessu máli og í Svíþjóð, að taka upp sérstök persónuskilríki sem viðurkennd eru af stofnunum Schengen-svæðisins. Þjóðerni viðkomandi aðila kemur fram á skilríkinu og uppfyllir þær kröfur að vera gefið út af stjórnvöldum. Staðreyndin er sú, herra forseti, að þó menn kunni að vera félagar í ýmsum klúbbum, hafi byssuleyfi og hafi alveg skínandi góð skilríki upp á það, mynd af sér og allar græjur, þá dugar það ekki nema viðkomandi skilríki séu gefin út af stjórnvöldum. Það er ekki tekið mark á skilríkjum eða skírteinum sem gefin eru út af öðrum aðilum.

Mér sýnist að --- ég er nú ekki með ökuskírteini á mér --- að ekki einu sinni ökuskírteini dugi í þessum efnum þó þar kunni að standa heiti viðkomandi lands. Það er ekki víst að þau skírteini séu þannig úr garði gerð að þau dugi.

Herra forseti. Ef menn vilja kynna sér þetta mál frekar þá vísa ég til fylgiskjals II með þessu nál. Þar er birt í íslenskri þýðingu grein úr Helsingborgs Dagblad frá 30. janúar sl. Þar er ágæt frétt --- þetta er tiltölulega áreiðanlegur fjölmiðill það ég best veit, gefinn út í ferjuborginni Helsingjaborg sem áður var --- um að ríkislögreglustjórnin sænska hafi unnið úttekt á þessu máli þar í landi, á þörfinni fyrir sérstakt sænskt nafnskírteini sem uppfylli þær kröfur sem aðild Svíþjóðar að Schengen-samstarfinu kallar á. Niðurstaðan þar á bæ er að nauðsynlegt sé að taka upp slíkt skírteini vegna ferðalaga innan Evrópusambandsins og skírteinið kunni einnig að verða nauðsynlegt þegar ferðast er milli Norðurlandanna þar sem ekki þarf vegabréf nú. Skírteinið á að þessu leyti að geta komið í staðinn fyrir vegabréf og geta verið eitthvað ódýrara. Þess vegna er hugsunin væntanlega sú að bjóða upp á að viðkomandi aðili þurfi ekki endilega að hafa vegabréf þótt væntanlega geti það átt við í mörgum tilvikum.

[16:30]

,,Það kann að hljóma þversagnakennt en þá getur það orðið enn mikilvægara en nú að geta sannað ríkisfang sitt, segir Lars Karlsand, sem tók þátt í vinnu RPS. Hann segir að í umfjöllun fjölmiðla hafi of mikil áhersla verið lögð á vegabréfafrelsið.``

Hefði ekki verið gott fyrir hæstv. utanrrh. að lesa þetta fyrir ári síðan eða tveimur, að varast það að leggja of mikla áherslu á vegabréfafrelsið þegar útkoman er sú að það er auðvitað ekkert annað en orðaleikur? Ég held hins vegar að hin raunverulega ástæða hafi ratað út úr hæstv. utanrrh. þegar hann sagði í umræðum um þetta mál, ég hygg að það hafi verið hér á Alþingi í fyrra frekar en í fjölmiðlum, þegar hann viðurkenndi að í raun væri þetta auðvitað fyrst og fremst pólitísk ákvörðun, Evrópupólitísk ákvörðun, að við Íslendingar gerðumst þarna aðilar.

Herra forseti. Ég læt þá staðar numið við þennan þátt málsins sem er dálítið grátbroslegur út frá forsögu málsins og því sem upp var lagt með, að varðveita norræna vegabréfasambandið þar sem látið var eins og það skipti gríðarlega miklu máli fyrir fólk að geta ferðast um án þess að þurfa að taka með sér vegabréf. Það er gott og blessað, ég geri ekki lítið úr því. Ég hef verið einlægur stuðningsmaður þess góða sambands sem var á milli Norðurlandanna í þessum efnum. Ég hef hins vegar iðulega bent á að það er ástæðulaust að gera meira úr því en efni hafa staðið til. Það hefur verið eins og við þekkjum og með öllu ástæðulaust að rugla því saman við þær víðtæku skuldbindingar sem fólgnar eru í aðild okkar að Schengen-samningnum og Dyflinnarsamningnum.

Næst vil ég, herra forseti, benda á að í raun er gildistaka þessara samninga og aðild okkar að Schengen-samstarfinu 25. mars nk. meira og minna í skötulíki og til málamynda. Það stafar m.a. af því að þegar betur er að gáð vantar heilmikla undirbúningsvinnu heima fyrir til að við getum uppfyllt ákvæði þessara samninga. Þetta eru þjóðréttarsamningar og skuldbinda okkur sem slíkir en þeir ganga ekki í gildi gagnvart landslögum nema þeir hafi verið lögteknir eftir því sem þörf krefur. Þau ákvæði þeirra sem kalla á sérstaka lagastoð þurfa að fá hana og í ljós kemur að hér vantar enn þá ýmsar forsendur til að uppfylla það. Hér er til umfjöllunar frv. um málefni útlendinga og þar inni eru ákvæði sem tengjast þessu.

Sömuleiðis á eftir að lögfesta heimildir, t.d. til fingrafaratökunnar sem er sjálfvirkur hluti af aðild að Dyflinnarsamningnum. Ég skil það svo, það hefur a.m.k. ekki verið vefengt af lögfræðingum Mannréttindaskrifstofu Íslands, að slík fingrafarataka væri að sjálfsögðu óhugsandi, ómöguleg og ólögmæt þangað til sett hefði verið löggjöf sem heimilaði hana. Ég tala nú ekki um þau ósköp að m.a. á að taka fingraför af ungmennum allt niður í 14 ára aldur.

Ég tel jafnframt að aðild okkar að Schengen-samstarfinu sé hálfpartinn til málamynda þann 25. mars nk. Ég fullyrði að undirbúningur okkar sé á ýmsan hátt í skötulíki. Ég óskaði eftir því í utanrmn. að nefndinni gæfist kostur á að fara nákvæmlega yfir stöðu þeirra mála og það stendur reyndar til að nota tímann fram undir lok marsmánaðar til að gera það. Nefndin hefur ekki komist af stað í þeim efnum enn þá. Ég hef verið að spyrjast fyrir um hvar menn séu á vegi staddir, t.d. annars staðar en á Keflavíkurflugvelli. Menn kannast nú mest lítið við að þetta sé að gerast. Þegar maður spyr segja menn: Já, Schengen, verðum við aðilar að því 25. mars, já? Aðilar á flugvöllum eða í höfnum sem eiga að vera hluti af þessum ytri landamærum Schengen-svæðisins virðast ekki uppteknari af því en svo, menn sem þó er þar ætlað hlutverk eða gætu fengið hlutverk á ytri landamærastöðvum þessa mikla svæðis.

Það á að taka nýbygginguna suður á Keflavíkurflugvelli í notkun til bráðabirgða, að hluta vegna Schengen. Restina á að taka í notkun undir næstu áramót, enda er þar allt hálfkarað og rétt fokhelt. Það á að heita svo að einhver hluti byggingarinnar verði tekinn í notkun til bráðabirgða, eins og ég tók eftir að það var orðað í fjölmiðlaviðtölum um daginn. Vonandi gengur það eftir. Mér er ljóst að meginþungi þessara framkvæmda liggur þar, þar með spurningin um hvernig málin ganga fyrir sig í flugstöðinni í Keflavík. Það breytir ekki hinu að ég hygg að það eigi eftir að sýna sig víða annars staðar að að öðru leyti hafi menn ekki unnið mikið að þeim undirbúningi sem eðlilegur væri. Ég tel að menn hafi alls ekki áttað sig á því í öllum tilvikum hvaða víðtæku skuldbindingar við undirgöngumst með því að taka að okkur þessa ytri landamæravörslu fyrir Evrópusambandið á öllum okkar landamærastöðvum.

Þá nokkur orð í viðbót, herra forseti, um persónuvernd og mannréttindaákvæði í þessu sambandi. Eins og ég hef áður sagt er fólgin í þessu samkomulagi gríðarleg söfnun persónulegra upplýsinga og skráning þeirra á rafrænu formi í miðlæga gagnagrunna. Þessar upplýsingar verða síðan kallaðar fram, í tilviki Schengen-upplýsingakerfisins, þegar menn koma inn á Schengen-svæðið, hvar sem er á því svæði. Því munu Íslendingar á skrá kynnast, hvort sem þeir eru að koma til eigin lands að utan eða annars staðar inn á landamæri svæðisins. Þar verður misjafn sauður í mörgu fé. Innan um þá sem teljast til harðsvíraðra og jafnvel dæmdra glæpamanna, sem verða að sjálfsögðu lýstir óæskilegir gestir af slíkum ástæðum, verða aðrir í mismunandi flokkum, fyrir allt aðrar og minni og jafnvel engar sakir, fyrir það eitt að hafa með einhverjum hætti tengst einhverju sem gerði að verkum að þeir lentu inni í Schengen-upplýsingakerfinu. Þannig geta til að mynda möguleg vitni, sem að sjálfsögðu eru ekki grunuð um neitt saknæmt eða misjafnt, verið skráð inn í þennan grunn o.s.frv. Ég ætla ekki að lengja hér umræðurnar með því að tína það allt til. Yfir margt af því var farið rækilega á síðasta ári. Ég vísa til þess sem þar var áður sagt.

EURODAC-kerfið er fylgifiskur þess að við gerumst með þessari tillögu aðilar að Dyflinnarsamningnum. Þar er líka á ferðinni mikil skráning persónuupplýsinga, sjálfvirk skráning persónuupplýsinga um fólk sem ekki er grunað um nokkurn skapaðan hlut, hefur ekki stöðu sakbornings eða grunaðs manns heldur er eingöngu skráð þar sjálfvirkt og tekin af því fingraför fyrir það eitt að leita hælis eða tengjast slíkum málum. Hið alvarlega er, herra forseti, að þessar upplýsingar á að geyma í tíu ár jafnvel þó viðkomandi aðili fái úrskurð sinna mála og sé veitt hæli. Svo lengi sem hann ekki fær ríkisfang í viðkomandi landi eru upplýsingarnar geymdar í tíu ár. Þetta hefur verið gagnrýnt og þessu hefur verið mótmælt. Menn hafa hins vegar ekki fallist á að hafa reglurnar þannig að þessar upplýsingar yrðu afmáðar jafnóðum og efni standa til.

Grundvallarreglan sem mannréttindasamtök um heim allan berjast fyrir í þessum efnum er í fyrsta lagi að slík skráning sé aldrei sjálfvirk, fari ekki fram nema rökstuddar ástæður liggi fyrir og sé skoðað í hverju tilviki fyrir sig. Menn telja að viss efnisleg rök þurfi að vera fyrir hendi til að viðkomandi skráning fari fram og síðan sé upplýsingunum eytt þegar þau rök eru ekki lengur til staðar.

Þessar grundvallarreglur eru brotnar í báðum þessum upplýsingakerfum, bæði Schengen-upplýsingakerfinu og EURODAC-kerfinu. Við fyrstu sýn eru oft á tíðum engar ástæður til að ætla að neitt misjafnt sé á ferðinni þegar maður óskar hælis. Setjum sem svo að vel þekktur baráttumaður á sviði mannréttindamála slyppi frá heimalandi sínu þar sem lífi hans hefði verið ógnað. Hann kæmi og gæti gert grein fyrir sér á einhverjum landamærum Dyflinnarsvæðisins. Það lægi í raun algjörlega fyrir að hann væri að flýja til að forða lífi sínu og hann væri ekki grunaður um saknæmt athæfi nema síður væri en samt ætti hann að skrást og takast fingraför af öllum fingrum hans af því að þetta er sjálfvirk regla. Hins vegar er ekki hægt að fara yfir það tilvik sem í hlut á hverju sinni og svara spurningum um hvort tilefni sé til að geyma svona persónuupplýsingar á meðan málin eru athuguð. Þessi grundvallarregla sem mannréttindasamtök og þar á meðal Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa barist fyrir er ekki virt í þessu. Það er rétt að það komi hér fram, herra forseti, að fulltrúi Mannréttindaskrifstofunnar var, þegar hann koma á fund utanrmn., mjög gagnrýninn á ákveðna þætti þessara mála.

Við bætist að þarna á að taka fingraför af ungmennum allt niður í 14 ára aldur. Það hefur auðvitað sætt mikilli gagnrýni hvernig fara á með mál 14--15 ára unglinga sem væru einir á ferð í vissum tilvikum. Það er ekkert mælt fyrir um það. Á að skipa þeim réttargæslumann? Hefði þá ekki átt að ganga frá því, herra forseti, áður en þetta mál var afgreitt hér, með hvaða hætti verður séð fyrir slíkum hlutum? Það skiptir gríðarlegu máli vilji menn átta sig á því hvort lágmarksmannréttindaákvæðum sé framfylgt að þessu leyti og reynt sé að búa jafntryggilega og hægt er um þau mál.

Að síðustu vil ég ítreka, herra forseti, að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fleiri slíkir hafa gagnrýnt ýmis ákvæði Dyflinnarsamningsins og telja að mannréttindum flóttafólks verði ábótavant eins ætlunin er að standa að málum þar. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að ákveðinnar tortryggni gætir, svo mjög vægt sé til orða tekið, víða innan Evrópu og utan hennar í garð þeirra fyrirætlana sem fólgnar eru í þessu Schengen-Dyflinnar-EURODAC-upplýsingafyrirkomulagi öllu.

Mjög margt vísar í þá átt að ætlunin sé að herða til mikilla muna framkvæmd flóttamannamála á ytri landamærum þessa svæðis og það eigi að vera mótvægið við afnám persónueftirlits á innri landamæra. Þegar spurt er: Hvernig ætla menn t.d. að hafa hemil ferðalögum óbótamanna, eiturlyfjasmyglara og þeirra sem stunda þrælahald nútímans, mansal og kynlífsþrælkun, innan svæðisins? Þá er sagt að það náist á tvo vegu, þ.e. með auknu persónueftirliti á götunni innan ríkjanna og hertu eftirliti á yrti landamærum. Það er þetta mikla upplýsingakerfi, sem á þá að vera hægt að fletta upp í, notað.

[16:45]

Herra forseti. Þessi aðferðafræði hefur hins vegar sætt mikilli gagngýni víða og mjög miklar efasemdir eru um að hún gangi upp. Sem dæmi má taka að talið er að um 400.000 manns séu nú þegar ólöglega í heimildarleysi innan svæðisins. Með afnámi persónueftirlits á landamærum er auðvitað verið að greiða för þessa fólks um allt svæðið. Það blasir við. Landamæraeftirlit, persónueftirlit, hefur þó verið ákveðin sía í þessu efni og þar hefur talsvert af slíkum ólöglegum innflytjendum og undirheimalýð strandað og menn hafa náðst í því eftirliti. Reyndar hefur, svo mótsagnakennt sem það er, gætt tilhneigingar hjá sumum Evrópuríkjanna að undanförnu til að herða þetta eftirlit. Frakkar hafa t.d. aldrei gengið jafnhart fram í persónueftirliti, eða a.m.k. ekki um mjög langt skeið, og undanfarin missiri, síðustu missirin áður en þeir urðu að leggja það niður vegna Schengen. Þeir hafa reyndar gengið langt í að halda uppi ýmsu eftirliti, bæði þeir og fleiri, með vísan til sérstakra aðstæðna eftir að svo á að heita að þetta samkomulag sé komið þar í gang.

Menn hafa áhyggjur af að flæði eiturlyfja vegna aðildar okkar að þessu samstarfi muni aukast. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnast menn dálítið kokhraustir eins og þeir hafa tala á síðustu mánuðum, ýmsir hverjir, um allt hið góða og jákvæða sem í þessu sé fólgið. Mér finnst eins settur hafi verið á einhver sérstakur áróðurskór fyrir því hvað þetta sé allt saman stórkostlegt og dásamlegt. Staðreyndin er sú að ýmsir af aðilum þessa máls eins og ríkislögreglustjóri, landlæknisembættið og fleiri aðilar voru í upphafi mjög gagnrýnir á þetta. Sú gagnrýni hefur einhvern veginn þagnað, verið kveðin í kútinn, af því að búið er að keyra á það miklu offorsi að við eigum að fara í þetta og þetta sé allt saman óskaplega jákvætt.

Þetta er alveg þveröfugt við það sem hefur gerst t.d. víða erlendis þar sem gagnrýnin hefur verið að þyngjast og áhyggjur manna, t.d. ríkjanna í kringum Holland, hafa verið að aukast vegna þess að menn óttast að það frjálsræði sem þar er í sambandi við fíkniefni og þær miklu dreifingarmiðstöðvar sem eru t.d. bæði í Hollandi og Ítalíu í fíkniefnaheiminum, muni greiða götu þeirra til að dreifa efnum um allt svæðið. Þá segja menn: Já, en þetta breytir ekki tolleftirliti og tollgæslu. Það er rétt. En tengingin við persónueftirlit á landamærum hverfur, hún verður óheimil. Af þessu hafa menn mjög miklar áhyggjur og eru með ýmsum hætti að reyna að bregðast við, nema hér að því er mér virðist. Jú, vissulega hefur það verið upplýst að verið sé að þjálfa nýja tollgæslumenn og lögreglumenn og það er verið að setja eitthvað aukna peninga í þessi mál.

En mér finnast menn furðu bjartsýnir og ég hefði jafnvel talið að hollara væri að horfa a.m.k. með gagnrýnum augum líka á hætturnar og vandamálin sem kunna að vera þessu samfara hjá okkur. Mér sýnist dálítið andvaraleysi vera ríkjandi í þessu eins og fleiru stundum hjá okkur um þessar mundir. Ég tók t.d. eftir því að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli var í miklu áróðursviðtali hjá Ríkisútvarpinu um þetta mál þar sem tíundað var allt hið góða og glæsilega sem þessu fylgdi og þeir miklu möguleikar sem þessu yrðu samfara hvað varðar upplýsingakerfið og aðild að því o.s.frv. en ég heyrði enga einustu efasemd eða gagnrýnisrödd í því viðtali og þeirri umfjöllun Ríkisútvarpsins um þetta mál. Því miður, herra forseti, hef ég ákaflega slæma tilfinningu fyrir því að svo einfaldur og fallegur eigi veruleikinn ekki eftir að reynast. Ég held að umræða í meira jafnvægi um þessa hluti, kosti og galla, hefði farið betur.

Vissulega eru ýmsir möguleikar fólgnir í þessu lögreglusamstarfi, ekki hvarflar að mér að neita því, og að hafa aðgang að þeim bönkum sem hægt er þá að fletta upp í, en það er líka vandmeðfarið eins og ég hef verið að fara yfir. Það er ekki einfalt mál að standa fyrir jafngríðarlega viðamikilli skráningu persónupplýsinga og þar á að fara fram og nota hana í því umhverfi nútímans þar sem tæknilegir möguleikar til að geyma upplýsingar eru orðnir nánast ótakmarkaðir og áhyggjur manna víða á byggðu bóli sívaxandi yfir því hvernig hver þeirra hreyfing er skráð rafrænt þannig að menn geta hvorki talað í síma né notað greiðslukort án þess að reikna með því að þar með sé hver þeirra hreyfing og hver þeirra athöfn í raun og veru meira og minna skráð og rekjanleg o.s.frv. enda er það ein mesta nýbúgrein vestan hafs um þessar mundir að veita fyrirtækjum og einstaklingum ráðgjöf í því hvernig eigi að tryggja persónuvernd og verja sig fyrir þeirri miklu vöktun og skráningu sem fólgin er í rafrænni upplýsingageymd og miðlun.

Herra forseti. Að lokun áður en ég kem að niðurstöðunni, þá liggur auðvitað fyrir að þetta verður okkur mjög dýrt. Læt ég það nú vera. Ég verð að segja alveg eins og er að fyrir mér er það kannski ekki veigamesta röksemdin gagnvart þeirri afstöðu minni að leggjast gegn því að við gerumst aðilar að því og telja það óskynsamlegt, a.m.k. eins og málum er háttað enn um sinn. En vissulega er rétt að hafa það með í farteskinu að þetta er ekki ókeypis, þetta hugsjónamál framsóknarmanna að koma okkur þarna aftur á bak og bakdyramegin inn í þessar Evrópusambandsstofnanir, Schengen og Dyflinnarsamninginn og EURODAC og allt það. Það er alveg ljóst að rekstrarkostnaður og fjárveitingar núna skipta hundruðum milljóna á ári hverju og munu gera í framtíðinni. Það er augljóslega kostnaður mældur í hundruðum milljóna. Fleiri tugir fastráðinna starfsmanna eingöngu vegna Schengen-aðildarinnar sem slíkrar, bæði í tollgæslu og lögreglueftirliti, líka í stofnununum, halda utan um íslenska hlutann af Schengen-upplýsingagrunninum og EURODAC-grunninum.

Stofnkostnaðurinn er líka mjög mikill. Hann hleypur sennilega frekar á milljörðum en hundruðum millj. í Keflavík. Að vísu var sagt að kannski væru ekki nema 700 millj. en þær tölur voru mjög á reiki þegar það var skoðað í fyrra og nú hlýtur að teljast að fram hafi komið býsna marktækar upplýsingar, t.d. frá fyrrverandi framkvæmdastjóra flugstöðvarinnar þar sem fullyrt er að þessi hlutföll liggi verulega öðruvísi og að mun stærri hluti kostnaðarins í Keflavík sem er bara í þeim áfanga sem nú er undir af stærðargráðunni 3--4 milljarðar kr., sé vegna Schengen. Þá erum við farin að tala þarna um milljarða stofnkostnað sem hægt hefði verið að komast hjá ef við hefðum ekki valið þá leið að vera þarna aðilar. Nærtækast er að skoða það út frá því að nýbyggingin á Keflavíkurflugvelli er á tveimur hæðum í staðinn fyrir einni, eingöngu vegna Schengen. Aðskilnaðurinn fer fram í því að önnur hæðin er fyrir farþega utan Schengen-svæðis og hin er fyrir farþega innan Schengen-svæðis. Þar hefði einfalt kerfi dugað, kannski eitthvað stærra, en þannig er þetta.

Þetta leiðir til annars, herra forseti, sem menn hafa lítinn gaum gefið að enn þá held ég, og það er að allur rekstrarkostnaður fer langt með að tvöfaldast vegna þess að menn þurfa að hafa tvöfaldan viðbúnað eiginlega af öllu tagi í þjónustu og veitingarekstri og öðru slíku vegna þess að um er að ræða tvær aðskildar einingar eða tvo aðskilda hluta byggingarinnar. Þeim hlutum má ekki blanda saman þannig að þar er járntjald á milli, þetta nýja járntjald sem er í raun og veru ytri landamæri Schengen-svæðisins og þarna er strax umtalsverður viðbótarrekstrarkostnaður.

Flugumferð frá Bandaríkjunum, sem er mikil inn til Íslands, og frá Bretlandi og Írlandi, sem ekki eru aðilar að Schengen, verður því að sæta því að vera aðskilin frá annarri umferð með tilheyrandi kostnaði.

Ég á því erfitt með að sjá í sjálfu sér að í þetta sé sérstaklega mikið að sækja, herra forseti. Ég segi það alveg eins og það er, menn geta sagt að það sé hreint óraunsæi og draumsýn sem eigi ekkert skylt við veruleikann, en ég leyfi mér að láta það eftir mér að segja það samt: Ég hefði svo sannarlega viljað sjá að Norðurlöndin hefðu staðið sameinuð um það að standa utan Schengen-svæðisins, hefðu að sjálfsögðu gert góða samninga við þau lönd eða það svæði um eins létt eftirlit í þeim efnum og kostur væri, svipað og Bretar og Írar hafa ákveðið að gera, a.m.k. enn um sinn. Þeir taka þátt í vissum hlutum Schengen-samstarfsins en áskilja sér rétt til þess að halda áfram uppi persónueftirliti á landamærum og eru að því leyti til fyrir utan, halda þeim heimildum, en að sjálfsögðu er þeim í sjálfsvald sett að hve miklu leyti þeir halda því uppi þegar umferð er að koma af Schengen-svæðinu til þeirra, það er alfarið þeirra mál. Þar af leiðandi þarf ekki að vera með viðameira eftirlit en viðkomandi ríki býður við að horfa í samskiptum sínum við Schengen-svæðið. Þess vegna held ég að menn hafi stórlega magnað upp fyrir sér það vandamál eða áhrifin af því að vera ekki með, a.m.k. að því leyti að halda eftir réttindum til að halda uppi persónueftirliti, hvað sem öðru liði.

Bretar og Írar, að vísu sem Evrópusambandsríki, taka fullan þátt í öðrum þáttum samstarfsins. Ég hef engan heyrt sanna að það sama hefði ekki getað gilt um Ísland eða hin Norðurlöndin þó þau hefðu að þessu leyti til ákveðið að fara sambærilega leið og Bretland og Írland.

Herra forseti. Niðurstaða minni hlutans er sem sagt sú að ekki sé hagstætt fyrir okkur Íslendinga að gerast aðilar að þessu samstarfi á þeim forsendum sem nú stendur til. Ég vísa aftur í því sambandi í almennar röksemdir gegn þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu, sbr. fylgiskjal I með þessu nefndaráliti.

Ég vísa einnig í þá stórkostlegu ágalla sem eru á bæði innihaldi og málsmeðferð í tengslum við aðild okkar að þessum Dyflinnarsamningi. Minni hlutinn leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Jafnframt verði ríkisstjórninni falið að tilkynna að Ísland kjósi að fresta aðild sinni að Schengen-samstarfinu um óákveðinn tíma og ætli að endurmeta aðkomu sína og þátttöku í þessum málum í heild sinni.

Ég hef þá lokið máli mínu.