Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:02:10 (4962)

2001-02-26 17:02:10# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:02]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað eru þetta kannski að einhverju leyti viðbrögð við orðanotkun, en ég minnist þess að þingmaðurinn hafi notað svipuð orð í umræðu sem var hér ekki alls fyrir löngu um EES-málin. Máltilfinning mín segir mér að ef verið er að tala um að einhverjir séu að koma bakdyramegin einhvers staðar inn, þá sé það ekki með opinni beinni leið, heldur sé verið með einhverjum hætti að bola sér þangað sem maður þykist ekki ætla. Þetta er sú málnotkun sem ég finn. Þingmaðurinn getur haft þá skoðun sem hann vill á aðild að stofnunum Evrópusambandsins eða hvort hitt eða þetta er bakdyraleið, en hann er að geta sérstaklega um ákveðna flokka í þeirri umræðu og gera þeim upp einhverjar leiðir að fara.

Herra forseti. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er ekkert viðkvæm fyrir umræðu um Samfylkinguna, síður en svo. En ég vil að rétt sé rétt. Og hvað það varðar, það er hárrétt hjá þingmanninum að við höfum stutt aðild að Schengen en erum reyndar með fyrirvara á þessu þingskjali en fylgjum meiri hlutanum í meginafgreiðslunni, þá er það nú svo að við höfum rætt það áður og þeir sem hafa viljað fyrst og fremst styðja EES-samninginn og hann sé það sem við höldum áfram með, þá hefur þótt fengur að því að hafa beina aðkomu að ákvarðanatöku í gegnum hann einmitt í nefndum sambandsins.