Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:04:22 (4963)

2001-02-26 17:04:22# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé tilefni til mikilla orðaskipta í viðbót. (Gripið fram í.) Já, vonandi er hv. þm. ekki að láta að því liggja að ég hafi viljandi verið að reyna að afvegaleiða hér umræður. Ég veit ekki annað en Samfylkingin hafi alla möguleika á að útskýra afstöðu sína í umræðum á eftir bara eins og hún mögulega getur.

Það sem ég var að vekja athygli á, herra forseti, og kemur kannski illa við menn, það getur vel verið að það sé tilefni til þess að menn kippast hér við, að menn eru auðvitað ekki með þeim hætti sem ég kalla að fara inn um aðalinnganginn að ganga í Evrópusambandið, að þeir sæki um aðild að því og geri það á þeim grunni að farið sé í aðildarviðræður og gengið í Evrópusambandið sem slíkt.

Það sem er hins vegar að gerast og hefur allt of litla athygli fengið er að menn eru að ganga í einstakar stofnanir Evrópusambandsins. Menn eru að gera það með því að ganga í Schengen og Schengen-upplýsingakerfið og með því að gerast aðilar að Dyflinnarsamningnum og EURODAC-kerfinu, sem verður innan fjögurra ára innlimað í Evrópusambandið. Það kalla ég að fara bakdyramegin inn í Evrópusambandið að þessum hluta til. Það var það sem ég sagði, nákvæmlega það og ekkert annað. Svo verða menn bara að vinna úr því (RG: Þú sagðir meira.) hver hjá sér. Ég sagði að Samfylkingin styddi þetta mál eins og Framsókn og Sjálfstfl. Átti það að vera leyndarmál eða hvað, hv. þm.?

Mér finnst þetta vera óþarflega mikil viðkvæmni. Hins vegar getur vel verið að mönnum hafi ekki verið alveg nógu ljós sá eðlismunur á þessum hlutum sem nú eru að gerast og svo aftur EES-samningnum sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi. Og hvað gerði ég í ræðu minni? Ég fór einmitt nákvæmlega yfir það hver grundvallarmunurinn væri á stöðu Íslands og hinna EES-ríkjanna, annars vegar í því fyrirkomulagi sem útbúið var á þeim grunni með tveggjastoðakerfinu og stofnunum beggja megin og hins vegar því sem þarna er að gerast. Ef áframhald verður á þessu, herra forseti, í verulegum mæli, á komandi árum göngum við í fleiri sambærilegar stofnanir eða samstarfsverkefni Evrópusambandsins, hvað er þá smátt og smátt að gerast?