Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:10:46 (4966)

2001-02-26 17:10:46# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég þurfi ekki að taka hæstv. utanrrh. í neinn tíma út af þessu máli (SJS: Jú.) vegna þess að ég man ósköp vel umræðurnar um það. Það sem hefði verið ankannalegt í þessu sambandi ef við hefðum ekki gerst aðilar að þessu samstarfi, að ytri landamæri Schengen klyfu Norðurlöndin, það var það sem var til umræðu þegar þetta mál var ákveðið á sínum tíma. Að öðru leyti hef ég engu við þetta að bæta á þessu stigi. Ég endurtek að þó að við séum aðilar að samstarfi á þessu ákveðna sviði sem fer fram hjá hluta Evrópubandalagsins, og við erum þá að hluta til aðilar að þeim stofnunum sem um þetta fjalla, þá hefur það ekkert að gera með það, hvort við göngum í Evrópubandalagið eða ekki eða hvort við föllum í freistni í þeim efnum, það eru allt aðrir þættir sem hafa úrslitaáhrif í því. Ég treysti mér alveg til þess að standast þær freistingar þótt einhver stofnun sé þarna sem fjallar um afmarkaðan þátt mála. Ég vísa því algerlega á bug að hér sé einhver vegvísir inn í Evrópubandalagið í þessu máli.