Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:14:54 (4968)

2001-02-26 17:14:54# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið undirritaði ég álit meiri hluta hv. utanrmn. í þessu máli, með fyrirvara þó, en hinn fulltrúi Samfylkingarinnar í utanrmn. var fjarstaddur þann fund þar sem málið var tekið út.

Það er rétt sem komið hefur fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að vinnubrögð stjórnvalda í Schengen-ferlinu öllu, tímaþröngin og skortur á vandaðri umræðu um málið eru vissulega ámælisverð og einnig umhugsunarverð upp á framhaldið að gera. Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, að ríkisstjórnin ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd málsins og það kom líka skýrt fram í nál. síðasta vor sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson, þáv. fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn., undirrituðu.

[17:15]

En eins og fram hefur komið lýstu forsætisráðherrar Norðurlandanna því yfir árið 1995 að það þjónaði best hagsmunum norræna vegabréfasambandsins að löndin hefðu sameiginlega jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu. Stjórnvöldum á Norðurlöndum var umhugað um að viðhalda hinu norræna vegabréfasambandi eins og fram hefur komið í þessari umræðu en auðvitað má velta fyrir sér hvort menn hafi almennt gert sér grein fyrir því árið 1995 hvað hengi á spýtu hins norræna vegabréfasambands. Ég leyfi mér að ætla að mjög margir hafi í raun ekki séð fyrir endann á þeim göngum. Því bera vitni þau vinnubrögð og sú tímaþröng sem þetta mál hefur verið keyrt í gegn í.

Aukin heldur er mjög mikilvægt í þessari umræðu að fólk hafi hugfast að hér verður ekki bæði sleppt og haldið. Annaðhvort erum við fullgildir þátttakendur í samstarfi um frjálsa för fólks um Schengen-löndin eða við stöndun algerlega fyrir utan það. Í því felst auðvitað pólitísk ákvörðun.

Ekkert bendir til þess að sérlausn fyrir Ísland hafi einhvern tímann verið inni í myndinni síðustu sex ár. Það kemur m.a. skýrt fram í Brussel-samningnum sem Alþingi fullgilti sl. vetur en í honum er að finna ákvæði um að Ísland og Noregur muni leitast við að framfylgja samræmdri framkvæmd og túlkun aðildarríkja ESB á einstökum gerðum og taka í því sambandi tillit til úrlausna dómstóls ESB.

Vissulega má segja að hér sé um stórt og kostnaðarsamt verkefni fyrir Íslendinga að ræða. Ljóst er að bæði stofnkostnaður og rekstrarkostnaður vegna Schengen-samningsins er umtalsverður. Fyrsti áfangi stækkunar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar er áætlaður 3,5 milljarðar kr. og um fjórðungur þess kostnaðar er sagður vera til kominn vegna Schengen-samningsins. Að auki er talað um að rekstrarkostnaður sé áætlaður um 46 millj. kr. á ári þó svo að þær tölur hafi reyndar verið nokkuð á reiki.

Ég ætla ekki að draga úr því, herra forseti, að kostnaðurinn er mikill. En ég er einnig þeirrar skoðunar að Íslendingar geti axlað hann enda séum við þar með þátttakendur í því að tryggja frjálsa för fólks um Schengen-svæðið.

Eins og fram hefur komið styður Samfylkingin aðild Íslands að Schengen-svæðinu. Hins vegar skal strax tekið fram að sú afstaða þýðir ekki að þar með hafi Samfylkingin kvittað undir innflytjendastefnu Evrópusambandsins, síður en svo, herra forseti. Hugmyndin um frjálsa för ríkisborgara um lönd Evrópusambandsins, Noreg og Ísland, endurspeglar sumt af því besta sem hugmyndin um bandalag Evrópuríkja byggist á. Afnám slíkra hindrana ýtir undir aukin samskipti á öllum sviðum samfélagsins og ferðalög og þar með vonandi undir gagnkvæman skilning og virðingu á milli manna og þjóða í álfunni. Að því leyti stuðlar Schengen að langþráðri opnun þar sem vegabréfsáritun verður óþörf í ferðalögum milli landa.

Mikilvægt er að það komi fram, herra forseti, að hér erum við að tala um vegabréfsáritanir. Í raun hefur þetta mál aldrei snúist um hvort menn séu með passann í vasanum eða ekki. Ég held að sá maður sé vandfundinn sem fer í ferðalag, hvað þá langferð, án þess að hafa skilríki upp á vasann. Ég hef a.m.k. ekki hitt þann mann.

Hins vegar, herra forseti, ber að gjalda varhuga við vaxandi áhuga ríkisstjórna ESB-landanna, þó svo það sé í mismiklum mæli, á því að vilja nota Schengen til þess að réttlæta strangari skilyrði um innflytjendur frá löndum utan Evrópusambandsins.

Fyrir nokkru var staddur hér á landi Grígorí Javlinskí, formaður Jabloko-flokksins í Rússlandi og fyrrverandi forsetaframbjóðandi þar í landi. Hann átti m.a. fund með fulltrúum í hv. utanrmn. En í viðtaldi við Javlinskí kom fram að jákvætt viðhorf Rússa og annarra þjóða í austurvegi vil ég ætla, í garð bæði Evrópusambandsins og NATO, mótaðist ekki síst af því hvort ferðafrelsi væri tryggt um álfuna. Aukið ferðafrelsi væri meðal þeirra þátta sem stuðluðu að aukinni þekkingu almennings á lýðræðislegum stjórnarháttum og starfsemi fjölmiðla í Vestur-Evrópu, svo dæmi sé nefnt og þar með mikilvægur þáttur í lýðræðisþróun í austurvegi.

Vert er að taka ummæli Javlinskís alvarlega. Ég er ein þeirra sem telja að það þjóni hagsmunum Evrópu allrar að tryggja frjálsa för fólks, ekki bara innan Schengen-svæðsins heldur einnig um álfuna alla eins og hún leggur sig.

Aukin harka í málefnum innflytjenda, jafnt löglegra sem ólöglegra, og einnig í móttöku þeirra sem beiðast hælist innan vébanda ESB, er mér áhyggjuefni, m.a. vegna þess að sú harka og sú stefna er ekki haldbær til framtíðar. Ekki aðeins elur hún á sundrungu og tortryggni á milli manna og þjóða, heldur skulum við ekki gleyma því, herra forseti, að án aðflutts vinnuafls fær Evrópa ekki þrifist. Hagsmunirnir eru því ekki bara á annan veginn í þessu máli.

Dyflinnarsamningurinn, sem hér er til umræðu, kveður á um málsmeðferð hælisbeiðenda á Schengen-svæðinu. Hér er í raun um skynsamlega nálgun við viðfangsefnið að ræða, þ.e. það liggi ljóst fyrir hvar eigi að taka slíka beiðni fyrir innan Schengen-svæðisins. Hins vegar hangir ýmislegt á þeirri spýtu sem var ekki augljóst við fyrstu skoðun. Fyrirvari minn og Samfylkingarinnar við Dyflinnarsamninginn er til kominn vegna þess að fullnægjandi lagaumhverfi er í raun ekki fyrir hendi hér á landi. Má segja sem svo, herra forseti, að lagasetningin sé í raun í öfugri röð.

Nú er til umfjöllunar í hv. allshn. umfangsmikið frv. um ný lög um útlendinga. Það er alveg ljóst, herra forseti, að það verður ekki afgreitt, þ.e. fái meiri hlutinn ráðið, fyrr en eftir afgreiðslu Dyflinnarsamningsins. Það þýðir í raun að grunninn vantar þó í gildi séu lög jafngömul þeirri sem hér stendur sem heita því óskemmtilega nafni Eftirlit með útlendingum.

Þegar málsmeðferðin er með þessum hætti, herra forseti, þá spyr ég mig hvort íslensk stjórnvöld ætli að bætast í hóp þeirra sem gætu hugsanlega notað Schengen-samninginn, bæði til að herða reglur um móttöku hælisleitenda eða nota Schengen-samninginn sem skálkaskjól til lítilla eða engra breytinga á móttöku hælisleitenda hér á landi eða gera þær reglur strangari hvað varðar komu útlendinga til landsins.

Að auki skal það nefnt eins og fram hefur komið í umræðunni að íslensk lög leyfa ekki fingrafaratöku í samræmi við efni Dyflinnarsamningsins. Það er alveg rétt að þessi fingrafarataka hælisbeiðenda er öxull samningsins. Þetta krefst mjög vandlegrar athugunar og hefði þetta mál farið í gegnum hið háa Alþingi með eðlilegum hraða hefði kannski gefist kostur til að skoða það nánar í hv. utanrmn. Hins vegar var ekki vilji til þess.

Menn hafa orðað það sem svo í umræðunni um Schengen að með Schengen-samningnum stæðu hv. þm. í raun frammi fyrir orðnum hlut. Þau orð lét m.a. hv. þm. Einar K. Guðfinnsson falla í umræðunni um Schengen sl. vetur. Það má að nokkru til sanns vegar færa, herra forseti, en ég er einnig þeirrar skoðunar að Schengen sýni okkur svart á hvítu hver samningsstaða okkar gagnvart Evrópusambandinu er þegar stórmál sem þessi eru á ferðinni. Við skulum athuga að Amsterdam-sáttmálinn veldur því að Schengen gengur innan nokkurra ára að verulegum hluta yfir í hið yfirþjóðlega vald ESB. Í því ljósi er það óneitanlega umhugsunarefni að í dag getur enginn svarað, a.m.k. hef ég ekki fengið þeirri spurningu svarað með óyggjandi hætti innan hins íslenska stjórnkerfis hver staða okkar innan Schengen verði eftir árið 2004.

Herra forseti. Mig langar til þess að lokum að varpa fram þeirri spurningu hvort Schengen-samningurinn geti þegar á reynir og að því gefnu að vaxandi harka í málefnum innflytjenda í Evrópu framkallist í lagasetningu Evrópuríkjanna, reynst nágrönnum okkar í austri, í Austur-Evrópu, jafnmikill farartálmi og járntjaldið gamla, sem féll góðu heilli fyrir ellefu árum? Sú goðsögn lifir enn góðu lífi að austur-evrópskir innflytjendur, og raunar innflytjendur annars staðar frá líka, taki störf frá Vestur-Evrópubúum og séu stór hluti erlends vinnuafls innan ESB. Svo er ekki. Við skulum athuga það, herra forseti, að fólk sem er fætt og uppalið í Vestur-Evrópu hefur ekki efni á því að loka dyrunum á vinnufúsar hendur útlendinga. Þörfin fyrir erlent vinnuafl er fyrir hendi eins og Íslendingar vita manna best og það sama á við um ríki ESB.

Við þurfum að horfast í augu við þessa staðreynd. Þó svo að samningurinn fjalli í raun aðeins um hælisbeiðendur og við séum öll vitandi vits um það að stærstur hluti þeirra útlendinga sem setjast að innan hins væntanlega Schengen-samnings eru í raun ekki hælisbeiðendur þá er þetta nokkuð sem við þurfum að taka með í reikninginn. Það væri óskynsamlegt af ábyrgum stjórnmálamönnum að horfast ekki í augu við þá staðreynd og tryggja þar með frjálsa för fólks um álfuna öllum til hagsbóta.

Að lokum, herra forseti, skulum við hafa hugfast að með Schengen-samningnum gerumst við ekki aðeins útvörður samningssvæðisins eins og fram hefur komið í umræðunni heldur leggur sú þátttaka ríkar skyldur á herðar okkar að setja í landslög ákvæði sem tryggja í raun vernd og skjól hælisbeiðenda og réttláta málsmeðferð þeirra sem hingað kjósa að koma í leit að vinnu og e.t.v. lífshamingjunni. Það er einmitt vegna þess að þau tilteknu lög sem eru nú til umfjöllunar í allshn. eru í raun ekki afgreidd að Samfylkingin geri fyrirvara við þetta mál. Hins vegar verð ég að segja að ég treysti því að hv. allshn. vinni það mál þannig að lagt verði fram frv. eða við 2. umr. verði lagt fram frv. um lög um útlendinga sem tryggir í raun vernd og skjól útlendinga á Íslandi. Ég leyfi mér að ætla að um það sé þverpólitísk samstaða á hinu háa Alþingi að það sé vilji okkar allra að ganga þannig frá málum að sómi sé að, að lög um útlendinga uppfylli þá alþjóðasáttmála sem við höfum undirritað og fullgilt og þar orki ekkert tvímælis. Það sýnir auðvitað, herra forseti, að við þurfum að gera þó nokkrar breytingar við það frv. sem liggur fyrir frá hæstv. dómsmrh. en ekki stendur á Samfylkingunni í þeirri vinnu. Við munum leggja okkur fram um það að frv. verði sómasamlega úr garði gert þannig að réttur útlendinga á Íslandi sé í raun réttri tryggður.

Ég hef lokið máli mínu.