Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 17:29:12 (4969)

2001-02-26 17:29:12# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm., síðasta ræðumanni, um tvennt og vil taka undir það. Það fyrra er að sannarlega væri ástæða til að fara betur yfir það hver staða Íslands verður nákvæmlega, stjórnskipulega, í þessu ferli að fjórum árum liðnum í síðasta lagi, þegar þessar stofnanir hafa verið innlimaðar formlega báðar, eða allar, í Evrópusambandið. Hitt er það að ég tek undir margt sem hv. þm. sagði um meðferð persónuupplýsinga í þessu og varðandi flóttamannapólitíkina. Ég held að ástæða sé til að hafa þar á fyrirvara. Ég vísa líka til þess sem ég sagði um þá gagnrýni sem þessi lending er að fá úr ýmsum áttum í þeim efnum.

Svo vil ég gera athugasemd við eitt atriði eða kannski fyrirvara um orðanotkun. Það var að hv. þm. sagði að ekki væri bæði hægt að sleppa og halda og annaðhvort væru menn með eða ekki með í frjálsri för á Schengen-svæðinu. Ég held að það sé dálítið varhugavert að nota þetta orðalag vegna þess að eitt af svonefndu fjórfrelsi á grundvelli ákvæða Rómarsamningsins eins og þau lágu fyrir þegar við gerðumst aðilar að EES-samningnum er frjáls för. Það er alveg ljóst að það eru algjörlega aðskilið mál hvað samningsskuldbindingar Íslands varðar. Ég held að það sé ljóst að við getum uppfyllt þau ákvæði án þess að vera aðilar að Schengen-samningnum, þ.e. þetta hefur engin áhrif á rétt allra borgara á Evrópska efnahagssvæðinu til að koma hingað og leita atvinnu og staðsetja sig hér í þessa sex mánuði eða hvað það nú er. Það held ég sé algerlega kristaltært að eru tvö algjörlega aðskilin mál. Þar er talað um frjálsa för þannig að ég held að það geti kannski pínulítið ruglað umræðuna að nota það orðalag aftur þegar kemur að spurningunni um persónueftirlit eða ekki persónueftirlit, um vegabréf eða ekki vegabréf, í tilviki þess að við séum eða séum ekki aðilar að Schengen.