Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 18:19:20 (4977)

2001-02-26 18:19:20# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[18:19]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði sjálfur í ræðunni áðan að hæstv. dómsmrh. hefði farið með þessar tölur með fyrirvara. Talan 3 milljarðar af 4 sem nefnd var vegna Schengen, það sjá náttúrlega allir að sú tala er út í hött. En ég endurtek að ég er ekki að rengja tölur sem hann fór með um 465 millj. Hann sundurliðaði það áðan. Hins vegar felst það í eftirlitinu sem þarna er verið að taka upp og efla, aðild að því kerfi og meginrökin fyrir aðild að Schengen eru þau að við erum að gerast aðilar að kerfi sem Evrópuþjóðirnar eru að taka upp og við mátum það þannig að það væri skynsamlegra fyrir okkur að eiga þar samleið en að standa fyrir utan. Það eru meginrökin. En hvort við þurfum að draga upp vegabréfið okkar í erlendum flughöfnum er að mínum dómi aukaatriði í þessu máli. Við þurfum að hafa persónuskilríki á okkur og vera tilbúin að grípa til þeirra þegar við erum spurð eftir þeim á erlendri grund. Við förum ekki í ferðalög án þess að hafa þau með og munum ekki gera það eftir Schengen frekar en áður.

Aðalatriðið að mínum dómi er að við erum að gerast aðilar að samstarfi þessara þjóða á þessu ákveðna sviði. Það gerum við af því að við teljum það vera hagkvæmara en að standa fyrir utan. Það hefur ekkert með aðild að Evrópusambandinu að gera eða hvort við þurfum að draga upp vegabréf í erlendum flughöfnum.