Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 18:23:40 (4979)

2001-02-26 18:23:40# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[18:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur tínt ýmislegt til gegn Schengen-samstarfinu og stækkun Leifsstöðvar í framhaldi af því og það er að mér heyrist, herra forseti, skoðun hans að þetta sé allt landi og þjóð til bölvunar og kostnaðurinn svo mikill að hann réttlæti ekki slíka aðgerð.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að þessi rök út af fyrir sig segja mér ekki neitt um það í grundvallaratriðum hvað hv. þm. vill. Ég velti því nefnilega fyrir mér eftir að ég heyrði ræðu hv. þm. hvort hann vilji í rauninni ekki að við séum í Evrópska efnahagssvæðinu. Mér finnst það í rauninni felast í þessu.

Við vitum ósköp vel að Evrópska efnahagssvæðið er í gegnum hálfopnar dyr Evrópusambandsins og tenging okkar þangað inn er afskaplega mikilvæg þjóðinni. Ég held að flestallir séu sammála því. Til þess að styrkja þau tengsl og a.m.k. veikja þau ekki hafa menn talið nauðsynlegt að viðhalda eins nánum samskiptum við Evrópusambandið og kostur er og þar á meðal var aðild okkar að Schengen hluti af því kerfi. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, og langar að spyrja hv. þm. að því hvort hann sé í rauninni að meina það að við eigum að ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu og verða algjörlega sjálfstæð hér á milli tveggja heima sem við ættum þá kannski frekar, eftir því sem mér heyrist, að geta nýtt okkur þá kosti sem felast í því að vera á milli þessara tveggja blokka.