Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 18:25:56 (4980)

2001-02-26 18:25:56# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[18:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að Íslendingar eigi að íhuga þann kost að þróa EES-samninginn í átt til tvíhliða samkomulags. Það er sú leið sem við hefðum talið að ætti að fara.

Ég hef aldrei séð þessa miklu kosti við EES-samninginn og sé margt af hinu illa við hann. Það er hins vegar önnur aðgerð að segja þeim samningi upp núna. Það er eitt að gera það. Það er mjög stór ákvörðun að gera það. Ég teldi réttara að reyna að þróa hann í átt til tvíhliða samkomulags.

Ég vil aðeins spyrja hv. þm. Kristján Pálsson sem vakti máls á fjárhagslegum hliðum þessa máls hvernig hann fer að því að réttlæta það fyrir sjálfum sér að Íslendingar verji milljörðum króna í stofnkostnað að þessu Schengen-fyrirkomulagi, milljörðum króna og mörg hundruð milljónum króna árlega til að reka kerfi sem í mínum augum a.m.k. hefur ekki sýnilega kosti aðra en pólitíska kosti sem hæstv. utanrrh. hefur tíundað. Ég virði þau sjónarmið. Ég virði sjónarmið Evrópusinna og Evrópusambandssinna þótt ég sé þeim ekki sammála sjálfur. En hvernig fer hv. þm. að því að réttlæta fyrir sjálfum sér að verja þessum peningum í samstarf sem ekki skilar Íslendingum neinum sýnilegum ávinningi öðrum en þeim að ráðherrar geti gengið með frelsistilfinningu um evrópskar flughafnir?