Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:46:35 (4989)

2001-02-27 13:46:35# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Framsfl. á heiðurinn af því að hafa fyrstur flokka viðurkennt þann mikla vanda sem fíkniefni og neysla þeirra veldur samfélaginu. Framsfl. gerði stórefldar varnir gegn innflutningi og neyslu fíkniefna að stefnumáli fyrir síðustu alþingiskosningar og lagði mjög ríka áherslu á þörfina fyrir að verja stórauknum fjárhæðum til að efla forvarnastarf, fjölga meðferðarúrræðum og efla bæði lög og tollgæslu. Sérstakar hækkanir til þessa málaflokks nema nú þegar milljarði kr. Forvarnastarf hefur verið stóraukið og því markmiði að útrýma biðlistum eftir fíkniefnameðferð hefur verið náð samhliða því að tryggja nauðsynlega fjölbreytni meðferðarúrræða.

Umtalsverðu viðbótarfjármagni hefur jafnframt verið varið til að efla bæði lög og tollgæslu og ljóst er á upplýsingum frá embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli að hertar aðgerðir, fjölgun tollgæslumanna, aukin og efld þjálfun og stóraukið og bætt samstarf bæði lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og samstarf við fíkniefnadeildina í Reykjavík hafa skilað mjög umtalsverðum árangri. Fjöldi upplýstra mála þar hefur meira en þrefaldast frá 1998 og magn haldlagðra fíkniefna hefur margfaldast. Sú spurning hver markmið toll- og löggæslunnar séu í fíkniefnavörnum er víða orðin mjög áleitin, enda virðist vera nokkur einhugur um það mat að þau fíkniefni sem lög- og tollgæslunni hefur á undanförnum árum tekist að koma höndum yfir séu ekki nema 5% þess magns sem flutt er til landsins. Þetta mat, ásamt þeim upplýsingum að verð á fíkniefnum um þessar mundir sé í lágmarki, hlýtur að vekja spurningar um hvaða markmið við teljum ásættanleg í því skyni að koma í veg fyrir innflutning fíkniefna og jafnframt spurningu um forgangsröðun verkefna og ráðstöfun fjár við lögreglu- og tollgæsluembætti og hjá viðkomandi ráðuneytum.

Herra forseti. Hvað löggæsluna varðar lágu þær upplýsingar fyrir við fjárlagagerðina (Forseti hringir.) og álit allshn. til fjárln. varðandi framlög samkvæmt frv. að mikið vantaði upp á að þjónusta (Forseti hringir.) rannsóknardeildanna í Reykjavík væri viðunandi (Forseti hringir.) en mikill fjöldi hvers konar mála hefur safnast þar upp og bíður rannsóknar.