Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:49:04 (4990)

2001-02-27 13:49:04# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz flutti hér framboðsræðu forustu Framsfl. í fíkniefnamálum og upplýsti m.a. að við náum allt að 5% af því magni sem flutt er til landsins svo menn sjá árangurinn. Þegar sá sem hér stendur heyrði fyrst þá frétt sem hér er til umræðu um bann við yfirvinnugreiðslum til fíkniefnalögreglu, þá hélt hann að þetta væri flugufrétt sem yrði snarlega leiðrétt. Svo reyndist ekki vera, því miður. Og að ætla sér að bera á móti því hvað hér hefur farið fram og átt sér stað er þýðingarlaust því að ella hefðu þessir menn ekki ritað lögfræðingi og prófessor við háskólann bréf til þess að leita úrskurðar um réttarstöðu sína.

Það flaug að þeim sem hér stendur hvenær til þess drægi að stöðvuð yrði starfsemi slysadeildarinnar vegna banns við yfirvinnu eða fjármagns til starfseminnar. Enginn eðlismunur er á því starfi sem fer fram við að bjarga mannslífum á slysadeild og því að hindra innflutning eiturefna til landsins. En það er eins með þetta málefni og mörg önnur brýn málefni eins og vegaeftirlitið. Þar skortir sárlega fjármagn til þess að framkvæma lög sem í gildi eru og af hlýst ógnarleg slysaalda eins og dæmin sanna.

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég álít að ekkert annað en stórátak til eflingar fíkniefnagæslunni í landinu dugi. Ekkert annað dugar. Land okkar er sem betur fer þann veg sett að það er hægara verk en nokkurs staðar annars staðar að talið er að hindra að þetta eigi sér stað eins og dæmin sanna.