Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:51:14 (4991)

2001-02-27 13:51:14# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Mikil umræða er í fjölmiðlum vegna skipunar lögreglumála. Ekki það að lögreglan sinni ekki skyldum sínum heldur hitt hvaða starfsskilyrði hún þarf að búa við.

Í fréttum undanfarna daga hefur mikið verið rætt um tvö mál. Annars vegar mál er varða mögulegan fíkniefnainnflutning í gegnum Vestmannaeyjar og hins vegar svarbréf Sigurðar Líndals til Landssambands lögreglumanna vegna meints yfirvinnubanns lögreglunnar. Í bréfinu, dags. 19. okt., er tekið fram og fullyrt að um algert bann við aukavinnu í ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík sé að ræða.

Nokkru eftir að þetta bréf var sent Sigurði Líndal er umræðan í þinginu á fljúgandi ferð um sömu mál, um meint yfirvinnubann lögreglunnar. En í þeirri umræðu sem fór fram segir hæstv. dómsmrh., með leyfi forseta:

,,Þá er það einnig alrangt að í gildi sé yfirvinnubann hjá fíkniefnalögreglunni og mun ég nefna tölur í því sambandi.``

Jafnframt segir dómsmrh. í þessari sömu umræðu:

,,Það er fyrir það fyrsta ekkert yfirvinnubann. Það er rétt sem hefur komið fram að rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík er komin verulega fram úr áætlun ársins hvað snertir yfirvinnu en þrátt fyrir það unnu starfsmenn deildarinnar, sem eru alls 12, um 900 tíma á tímabilinu 11. október til 10. nóvember síðastliðinn. Reyndar fór yfirvinnan upp í allt að 3.000 tíma á mánuði í sumar.``

Svo mörg voru þau orð. Það er afar mikill munur á 3.000 tímum og 900 tímum. Alla vega samkvæmt mínum reikningsskilningi. Og hversu mikið af þessu skyldi t.d. hafa farið í gæslu á Li Peng? Ef ekkert yfirvinnubann var, hvers vegna í ósköpunum var þá Landssamband lögreglumanna að biðja um álit vegna málsins? Hver segir satt í þessu máli? Hvað er eiginlega í gangi?

Vestmannaeyjamálið er annar kapítuli út af fyrir sig. Þar standa orð gegn orði. Sýslumaður segist hafa beðið um aðstoð vegna gruns um að dóp væri að koma til Eyja en í tilkynningunni frá lögreglunni í Reykjavík kemur fram að ekki hafi verið beðið um aðstoð, hvorki við rannsókn né framkvæmd annarra aðgerða.

Í tilkynningunni segir enn fremur: ,,Hins vegar var fíkniefnadeildin í sambandi við yfirmann lögreglunnar í Vestmannaeyjum en jafnframt var hún önnum kafin í öðrum málum á þessum tíma.`` (Forseti hringir.)

Ég fagna umbeðinni rannsókn hæstv. dómsmrh. á því máli.