Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 13:55:42 (4993)

2001-02-27 13:55:42# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér erum við í raun að fjalla um fjárframlög og starfsaðstöðu lögreglunnar og fíkniefnalögreglunnar vegna meints yfirvinnubanns og út af sérstöku máli. Ég segi vegna ,,meints`` vegna þess að í nóvember lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir að ekkert yfirvinnubann væri í gangi og hún endurtók það hér við umræðuna áðan og staðhæfir að það hafi ekkert yfirvinnubann verið í gangi hjá fíkniefnalögreglunni í Reykjavík þó að lögreglan staðhæfi annað. En það er erfitt fyrir hæstv. dómsmrh. að viðurkenna að yfirvinnubann sé í gangi, sama hvort það er fíkniefnalögreglan eða umferðarlögreglan eða önnur lögregluembætti því að um leið er verið að gefa þau skilaboð út í samfélagið að störf lögreglunnar séu mjög takmörkuð. Og hvort sem það er í umferðinni eða hjá þeim sem hafa áhuga á því að smygla inn fíkniefnum sem öðru, þá mundu þeir leita færis til lögbrota ef yfirlýst ástand væri um fjársvelti til lögreglunnar. En eftir á er rétt að þau skilaboð komi skýrt fram til Alþingis hvernig ástandið er. Það verður að koma inn í fjárlagagerðina fyrir 2002 hver staðan er og því verðum við hér á hinu háa Alþingi að fá það skýrt upplýst eftir rannsókn ríkislögreglustjóra sem núna á að fara í gang í fyrsta lagi hvaða mál þetta er og að Alþingi hafi þá allan aðgang að gögnum um málið, bæði þetta og önnur sem koma fram (Forseti hringir.) vegna fjárskorts svo hægt sé að greiða úr málum lögreglunnar og hún hafi það fjármagn sem hún þarf.