Staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:04:29 (4997)

2001-02-27 14:04:29# 126. lþ. 77.94 fundur 334#B staða fíkniefnalögreglunnar með tilliti til fjárveitinga# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er ekkert skrýtið að þetta mál sé tekið upp aftur og aftur. Sá orðrómur hefur lengi legið í loftinu að vegna fjárskorts hafi fíkniefnadeildin þurft að haga starfsemi sinni þannig að hún hafi ekki getað unnið yfirtíð. Þessu hefur verið haldið fram hjá Ríkisútvarpinu, þessu hefur verið haldið fram af Degi, þessu hefur verið haldið fram af DV, þessu hefur verið haldið fram af Landssambandi lögreglumanna og þessu hefur verið haldið fram af einstaka lögreglumönnum. Síðan geta menn ráðið því hvort þeir trúa hæstv. dómsmrh. eða einhverjum öðrum.

En vegna fullyrðingar hæstv. dómsmrh. áðan ætla ég að leyfa mér að lesa upp úr bréfi sem er ritað af félaga í Landssambandi lögreglumanna og það hljómar svo, virðulegi forseti:

,,Fyrir síðustu helgi var það mat þeirra rannsóknarlögreglumanna sem stýrðu rannsókn þessa máls að einn hinna grunuðu yrði um helgina að handleika stóran fíkniefnapakka, sem fyrir skömmu var smyglað til landsins, og væri að koma fíkniefnapakkanum fyrir og dreifa til smærri söluaðila. Það var einnig mat rannsakara að þarna væri um að ræða verulegt magn fíkniefna. Var þetta mat byggt á sönnunargögnum sem fengust með aðgerðum. Er leitað var eftir heimild til þess að vinna að þessu máli var vísað í fyrirmæli um að óheimilt væri að vinna yfirvinnu í ÁFD (ávana- og fíkniefnadeild). Ekkert var því unnið um helgina. Í ljós kom eftir helgina að grunur rannsakara reyndist á rökum reistur og eru gögn því til sönnunar. Í gögnunum kemur fram að um verulegt magn hafi verið að ræða og margar tegundir fíkniefna.``

Virðulegi forseti. Er það virkilega enn svo að hæstv. dómsmrh. ætli að halda því fram að ekkert bann hafi verið á aukavinnu hjá ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar? Er það virkilega svo að hún ætli að halda því fram að allir sem að þessu máli hafi komið séu að ljúga? Ekki er nema von, virðulegi forseti, að spurt sé því að það er einfaldlega okkar hér á hinu háa Alþingi að veita fjármagn í þessa starfsemi og ef starfsemin er ekki í nægilega góðu lagi sökum þess, þá þurfum við að taka til hendinni. (Forseti hringir.)