Framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:13:19 (4999)

2001-02-27 14:13:19# 126. lþ. 77.3 fundur 391. mál: #A framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:13]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Frv. þetta er flutt í kjölfar þess að Alþingi samþykkti 8. maí sl. till. til þál. um fullgildingu samþykktarinnar. Samþykktin var upphaflega undirrituð fyrir Íslands hönd þann 26. ágúst 1998 en hún var síðan fullgilt 25. maí 2000. Samþykktin hefur hins vegar ekki tekið gildi og öðlast hún ekki gildi fyrr en fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru 60 dagar frá því að 60. skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild hefur verið afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Miðað við 13. febrúar sl. hafa 28 ríki fullgilt samþykktina en 139 ríki undirritað hana.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði nauðsynleg ákvæði til að dómstólum og stjórnvöldum hér á landi verði unnt að framkvæma ákvæði Rómarsamþykktarinnar í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins. Lagt er til að sett verði sérstök löggjöf um framkvæmd samþykktarinnar hér á landi og að þeirri löggjöf verði hagað í samræmi við lög um réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu.

Frumvarp þetta er samið af refsiréttarnefnd sem starfar á vegum ráðuneytisins. Var Róbert R. Spanó, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis og aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands, fenginn til að semja drög að frumvarpinu, en þessi ungi og efnilegi fræðimaður hefur m.a. fengist við rannsóknir á sviði alþjóðlegs refsiréttar.

[14:15]

Við samningu frv. hefur verið höfð hliðsjón af hliðstæðum frumvörpum í Noregi og í Danmörku.

Í grg. með frv. er rakinn sögulegur aðdragandi að stofnun varanlegs, alþjóðlegs sakamáladómstóls auk þess sem gerð er ítarleg grein fyrir efni Rómarsamþykktarinnar. Þeir glæpir sem falla undir lögsögu dómstólsins eru tæmandi taldir í 5. gr. samþykktarinnar en þeir eru: hópmorð, glæpir gegn mannúð, stríðsglæpir og glæpir gegn friði. Þessir glæpir hafa almennt verið taldir falla undir samheitið ,,glæpir gegn mannkyninu`` vegna eðlis þeirra og alvöru. Nánari skilgreiningar á þessum glæpum er að finna í 6.--8. gr. samþykktarinnar.

Samkvæmt 11. gr. samþykktarinnar hefur dómstólinn eingöngu lögsögu að því er varðar glæpi sem framdir eru eftir að samþykktin öðlaðist gildi.

Af 12. og 13. gr. samþykktarinnar leiðir einnig að dómstóllinn hefur lögsögu í málum til fyllingar lögsögu einstakra ríkja. Þannig er almennt gert ráð fyrir að mál verði sótt í viðkomandi ríki en við ákveðnar aðstæður verður lögsaga dómstólsins hins vegar sjálfkrafa virk.

Herra forseti. Ég ætla ekki að rekja nánar efni samþykktarinnar og leyfi mér að vísa til ítarlegrar umfjöllunar um hana í grg. með frv. Ég vil hins vegar í nokkrum orðum gera grein fyrir efnisatriðum frv. sjálfs.

Í 1. gr. frv. er fjallað um gildissvið laganna. Þar segir að fari Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn þess á leit að hér á landi verði framkvæmdar aðgerðir vegna rannsóknar eða meðferðar máls skuli fara með slíkar beiðnir í samræmi við ákvæði laganna. Sama gildir um beiðnir dómstólsins um fullnustu dóma.

Samkvæmt 2. gr. frv. skal afhenda dómstólnum mann sem dvelur hér á landi og er grunaður um brot sem fellur undir lögsögu dómstólsins eða hefur verið ákærður eða dæmdur fyrir slíkt brot. Einnig er gert ráð fyrir því í 3. gr. frv. að unnt sé að veita dómstólnum aðra þá aðstoð sem tilgreind er í 93. gr. samþykktarinnar.

Þá er í 4. gr. frv. að finna heimild til að handtaka þann sem dómstóllinn hefur óskað eftir að fá afhentan og beita öðrum þvingunarráðstöfunum.

Í 5. og 6. gr. frv. eru síðan ákvæði um verjanda sakbornings og réttargæslumann brotaþola.

Þá er í 8. gr. frv. að finna heimild til að fullnægja dómum Alþjóðlega sakamáladómstólsins hér á landi.

Loks er í 9. gr. frv. að finna ákvæði um refsingar fyrir brot gegn dómstólnum eða starfsmönnum hans.

Hæstv. forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.