Framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:22:53 (5001)

2001-02-27 14:22:53# 126. lþ. 77.3 fundur 391. mál: #A framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:22]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og rakið er nokkuð ítarlega í athugasemdum með frv. er nokkuð langt síðan rætt hefur verið um það innan Sameinuðu þjóðanna hvort settur skuli á stofn varanlegur alþjóðlegur sakamáladómstóll en það hefur verið til umræðu allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Sögulega ná hugmyndir um stofnun slíks dómstóls a.m.k. allt aftur til Versalasamningsins árið 1919 en í þeim samningi var gert ráð fyrir stofnun ,,ad hoc`` alþjóðadómstóls sem hefði það hlutverk að saksækja og dæma í málum þýskra stríðsglæpamanna. Hins vegar varð ekkert af stofnun slíks dómstóls og í kjölfarið var oft rætt um að stofna slíkan dómstól á vettvangi Þjóðabandalagsins.

Ég tel rétt að draga hér sérstaklega fram, að sögulegar ástæður séu fyrir því hvers vegna þessu hefur ekki verið komið á fyrr en nú. Í grg. með frv. eða í athugasemdunum er m.a. talað um stjórnmálalegan tíðaranda sem tengdur var uppgangi nasisma og fasisma um miðja síðustu öld sem hefur væntanlega staðið hvað lengst í vegi fyrir því.

Síðari heimsstyrjöldin leiddi síðan til stofnunar Alþjóðaherdómstólsins í Nürnberg í Þýskalandi en í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar var eins og fyrr greinir rætt talsvert um hvort stofna ætti varanlegan alþjóðlegan sakamáladómstól. Það gerðist í raun og veru ekki, einhverjar tilraunir voru í gangi og lítið sem ekkert var um tilraunir til að setja á laggirnar varanlegan alþjóðlegan sakamáladómstól á næstu áratugum fyrr en í upphafi tíunda áratugar 20. aldar að verulegur skriður komst á málið innan Sameinuðu þjóðanna, eins og segir hér í athugasemdunum:

,,Í lok kalda stríðsins og þegar styrjöldin á Balkanskaga hófst árið 1991 hafði alþjóðalaganefnd Sameinuðu þjóðanna þegar fengið það verkefni að nýju að útbúa drög að samningi um stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls og lauk nefndin því verki árið 1994.``

Ég held að mikilvægt sé, herra forseti, að minna á þessar sögulegu forsendur og hvernig tíðarandinn á hverjum tíma hefur í raun haft áhrif á þróun þessara mála. Ég held að það sé engin tilviljun að þetta gerist í kjölfar þess að kalda stríðinu er að ljúka að skriður kemst á þetta mál og það sé ákveðið sögulegt samhengi þar á milli. Og ég vil bara fagna því að þetta mál skuli vera komið svo langt að við sjáum það verða að veruleika von bráðar. Því að vissulega er það svo að stofnun alþjóðlegs sakamáladómstóls er eitt fremsta mannréttindamál sem við höfum séð mjög lengi verða að raunveruleika.

Ísland var í hópi 60 ríkja á ríkjaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rómarborg sem lögðu mesta áherslu á að dómstóllinn yrði skilvirkt og öflugt tæki í baráttunni við alþjóðaglæpi sem er mjög mikilvægt líka. Rómarsamþykktin var undirrituð fyrir Íslands hönd í ágúst 1998 og síðan fullgilt í maí 2000 en Alþingi samþykkti þá till. til þál. um fullgildingu Rómarsamþykktarinnar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Þetta frv. sem hér er til umræðu kveður á um framkvæmd samþykktarinnar og er því í rauninni eðlilegt framhald málsins á hinu háa Alþingi.

Ég vil einungis, herra forseti, fagna því að þessum áfanga skuli nú vera náð í mannréttindavernd að unnt sé að leita uppi og dæma menn sem hafa gerst sekir um glæpi gegn mannkyninu, en þegar við tölum um glæpi gegn mannkyninu eigum við við hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. En við höfum því miður fylgst með því allt of lengi að þeir menn sem gerst hafa sekir um þessa hræðilegu glæpi hafa getað ferðast um heiminn í skjóli þess að engin lögsaga nái til þeirra og hafa í raun og veru getað lifað sínu lífi áfram þrátt fyrir það að hafa framkvæmt hræðilega glæpi gegn einstaklingum og jafnvel heilu þjóðunum eða kynþáttunum og gjarnan í skjóli þess að það sé nánast eðlilegt að slíkir glæpir séu framdir í skjóli eða í skugga stríðsátaka. Með því að stofna þennan dómstól sem gerir það að verkum að hægt er að ná til þessara manna hvar sem er, þá er að sjálfsögðu um leið verið að leggja þungt lóð á vogarskálar þess að jafnvel í skugga stríðs, jafnvel þó að um sé að ræða stríðsátök og það ástand sem þá ríkir, sé það fráleitt að menn geti skýlt sér á bak við lögsögu með því að flýja á milli landa.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og geri ráð fyrir að skoða þetta mál frekar eftir að það hefur fengið umfjöllun í nefnd. Ég vil einungis fagna því hér og nú að þetta mál sé komið fram og að þessum stóra áfanga í mannréttindavernd sé náð.