Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 14:52:04 (5007)

2001-02-27 14:52:04# 126. lþ. 77.4 fundur 410. mál: #A hjúskaparlög# (könnun hjónavígsluskilyrða) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða breytingu á hjúskaparlögum og ætla ég að koma aðeins inn í umræðuna. Ég tek undir orð hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur um athugasemdir um að verið sé að gera tillögur um að aðrar reglur gildi um útlendinga en Íslendinga þegar um hjúskap er að ræða.

Ég verð að segja að mér finnst það að mörgu leyti óeðlilegt hvernig þessar tillögur aðgreina það hvort maður er íslenskur ríkisborgari eða erlendur ríkisborgari og ég leyfi mér að koma með ákveðnar efasemdir um að þetta standist stjórnarskrána hvað varðar grunnhugmyndir um mannréttindi. Á þetta hefur prestur nýbúa, Toshiki Toma, bent í umsögn sem hann sendi öllum þingmönnum um þetta mál og finnst mér mjög margt sem hann bendir á vert athugunar hvað varðar þetta mál allt saman.

Í stjórnarskránni stendur:

,,Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.``

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til þjóðernisuppruna og þó svo að allir í þessu tilfelli eigi sjálfsagt við íslenska ríkisborgara, þá hlýtur það einnig að eiga við um erlenda ríkisborgara sem eru búsettir hér á landi og þurfa að lúta íslenskum lögum. Það ber að skilja það svo að allir skulu vera jafnir fyrir lögunum.

Það er alveg eðlilegt að sett séu sérstök lög og takmarkanir fyrir útlendinga hvað varðar dvalarleyfi, kosningarrétt og ýmislegt annað en hvað varðar hjúskaparréttinn og skilyrði til hans, þá hef ég ákveðnar efasemdir um þann þátt og svo vitnað sé aftur til stjórnarskrárinnar, þá kemur einnig fram í henni í 71. gr. að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og hefði ég talið að hjúskaparrétturinn tilheyrði þeim þætti, þ.e. friðhelgi einkalífsins, heimilis og fjölskyldu. Því tel ég að allshn. þurfi að fara rækilega yfir þennan þátt. Og af því að við vorum að ræða lagaráð ekki alls fyrir löngu, þá hefði ég talið, herra forseti, að full ástæða hefði verið til þess að lagaráð væri starfandi hér við þingið og það skoðaði einmitt þetta frv. með tilliti til stjórnarskrárinnar og annarra alþjóðasáttmála sem við erum aðilar að.

Talað hefur verið um það í þessu sambandi og gefið í skyn að menn séu e.t.v. að leggja fram falsaða pappíra. Það liggur stundum í orðunum og kannski er eitthvað af þeim atriðum sem tekin eru inn í frv. til þess að koma í veg fyrir það en það hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir það án þess að settar séu reglur um mismunun á þeim einstaklingum sem ganga í hjúskap hér á landi, hvort þeir eru íslenskir ríkisborgarar eða ekki.

Einnig væri hægt að spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði, herra forseti, hvort hún hafi tölur yfir það hversu mikið það hafi færst í vöxt að erlendir ríkisborgarar hafi komið hingað til að ganga í hjúskap. Því er haldið fram í athugasemdum með lagafrv. og væri áhugavert að fá þær upplýsingar hjá hæstv. ráðherra um hversu mjög það hefur færst í vöxt að erlendir ríkisborgarar hafi komið hingað til að stofna til hjúskapar og hvort einhverjar tölur séu fyrirliggjandi um þau atriði.

Síðan er annað atriði sem ég hefði gjarnan viljað koma að en það er athugasemd sem Toshiki Toma bendir á um að könnunarmenn skuli meta hvaða skjöl hjónaefni þurfi að leggja fram og leggja mat á framlögð skjöl. Hvað þýðir í raun og veru að könnunarmenn skuli meta hvaða skjöl hjónaefni skulu leggja fram í hverju tilviki? Á þá ekki að gilda það sama um Íslendinga?

Ég velti því fyrir mér hvort t.d. sýslumenn eigi að fá aukið vald til að meta það hvaða sérskilyrði eiga að gilda eftir því hver manneskjan er og hvaðan hún kemur. Þetta er svolítið varhugavert og kannski eitthvað sem við eigum að velta fyrir okkur hvort við eigum að taka upp þau vinnubrögð sem gætu falist í þessari hugsun og þessari kröfu, þ.e. að fá skýrar fram hvað liggur að baki þessari hugmynd.

Herra forseti. Ég vonast til þess að allshn. fari rækilega ofan í þetta mál og sjái til þess að mönnum verði ekki mismunað með mismunandi málsmeðferð eftir þjóðerni eins og mér finnst liggja dálítið í orðanna hljóðan í frv. og það verði skoðað hvort þetta sé brot t.d. á alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland er aðili að, þar sem stendur að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Ég vonast til að það verði einnig skoðað rækilega í allshn. þegar málið verður þar til umfjöllunar.

Það eru ýmis fleiri atriði sem prestur innflytjenda, Toshiki Toma, bendir á í umfjöllun um þetta mál sem ég hefði talið að full ástæða væri til að skoða, en eins og fram hefur komið í máli mínu, herra forseti, hef ég ákveðnar efasemdir um að þetta mál standist alþjóðasáttmála og jafnvel stjórnarskrána þannig að ég tel að fara þurfi rækilega yfir það og hvort stætt sé á því að aðrar reglur gildi um útlendinga sem búa hér á landi og vilja ganga í hjúskap heldur en aðra sem ganga í hjúskap hér á landi, þ.e. íslenska ríkisborgara.