Framsal sakamanna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:13:28 (5011)

2001-02-27 15:13:28# 126. lþ. 77.5 fundur 453. mál: #A framsal sakamanna# (Schengen-samstarfið) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:13]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Með frv. eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

Hinn 29. maí 2000 var samþykktur af Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess samningur um gagnkvæma aðstoð í sakamálum. Markmiðið með þeim samningi er að bæta og auka réttaraðstoð milli ríkjanna í sakamálum á þeim grundvelli sem þegar er fyrir hendi, en sú samvinna hvílir einkum á Evrópusamningi um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá árinu 1959 og Schengen-samningnum frá 1990. Þessi nýi samningur Evrópusambandsríkjanna um gagnkvæma aðstoð í sakamálum felur meðal annars í sér breytingu á Schengen-reglum sem gilda á þessu sviði. Hvað það varðar tekur samningurinn til Íslands og Noregs en löndin hafa fyrir sitt leyti lýst því yfir að þau fallist á samninginn.

Í 2. gr. samningsins eru rakin þau ákvæði hans sem breyta eða byggja á þeim Schengen-reglum sem gilda gagnvart Íslandi og Noregi. Þessi ákvæði eru 3. gr., sem felur í sér að gagnkvæma réttaraðstoð skuli einnig veita í refsimálum til úrlausnar hjá stjórnvöldum og í málum vegna refsiábyrgðar lögaðila, 5. gr., um sendingu og afhendingu málsskjala, 6. gr., um sendingu beiðna um gagnkvæma réttaraðstoð, 7. gr., um miðlun upplýsinga án formlegrar beiðni, 12. gr., um afhendingu undir eftirliti, og 23. gr., um vernd persónuupplýsinga. Að því er varðar afhendingu undir eftirliti skv. 12. gr. gilda einnig ákvæði 15. gr. samningsins um refsiábyrgð opinberra starfsmanna og 16. gr. um skaðabótaábyrgð vegna opinberra starfsmanna.

Sá lagagrundvöllur sem er þegar fyrir hendi samkvæmt lögum um framsal sakamanna og aðra réttaraðstoð í sakamálum og lögum um meðferð opinberra mála er í flestu tilliti viðhlítandi til að unnt sé að fullnægja þeim skuldbindingum sem hvíla á Íslandi vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu. Þó er nauðsynlegt að gera minni háttar breytingar á lögum svo sem lagt er til með frv. Hér eru eingöngu lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar af þessu tilefni en stefnt er að því síðar að taka frekari þátt í gagnkvæmri réttaraðstoð á grundvelli frv.

Herra forseti. Ég hef gert almenna grein fyrir efni frv. en vík nú að einstökum tillögum þess.

Með frv. er lagt til að tvær nýjar greinar bætist við lögin. Annars vegar er um að ræða ákvæði varðandi sendingu og afhendingu málsskjala í samræmi við 5. gr. samningsins. Hins vegar er um að ræða ákvæði um refsivernd og refsi\-ábyrgð embættismanna frá öðrum aðildarríkjum sem taka þátt í rannsókn eða meðferð opinbers máls hér á landi en það ákvæði er í samræmi við 15. gr. samningsins.

Ég hef nú í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.