Framsal sakamanna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:17:16 (5012)

2001-02-27 15:17:16# 126. lþ. 77.5 fundur 453. mál: #A framsal sakamanna# (Schengen-samstarfið) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að hafa mörg orð um þetta mál sem mér sýnist vera eðlileg og sjálfsögð breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum þar sem í raun og veru er verið að auðvelda það að hægt sé að nálgast þá sem lögin ná til með því að stjórnvöldum sé heimilt að semja um að yfirvöld í erlendu ríki megi senda einstaklingi hér á landi í pósti tilkynningu eða málsskjöl vegna rannsóknar eða meðferðar sakamáls og að heimilt sé að þýða skjalið eða meginefni þess á íslensku eða annað tungumál sem erlendu yfirvaldi er kunnugt um að viðtakandi skilur. Ég vildi því einungis lýsa því yfir að hér virðist vera um eðlilegt og sjálfsagt mál að ræða og ómögulegt er að sjá annað en að það leiði til betri framkvæmdar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum sem ætlunin er að þau geri með þessu frv. Ég lýsi því yfir að hér er að mínu mati hið ágætasta mál á ferðinni.