Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:25:13 (5015)

2001-02-27 15:25:13# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alltaf meira og minna undrandi á málflutningi vinar míns, hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, sem ég hélt að hefði komið í landbn. sérstaklega til að styðja við bakið á mér eins og hann hét mér forðum og hef talið hann í þeirri stöðu. En þegar ég flyt hér mál mín kemur hann eiginlega úr allt annarri átt, eiginlega beint af fjöllunum, og snýr út úr þessum málum.

Í sjálfu sér hef ég aldrei haft mikið á móti hlutafélögum. Ég hef hins vegar sagt að í ríkisfyrirtækjum sé hlutafélagsformið til að selja eins og hefur alltaf komið í ljós. En í þessu máli þarf ekkert að snúa út úr enda veit ég að hv. þm. sem er Hafnfirðingur er bara svona gamansamur um miðjan dag. Hann sér auðvitað það sem ég fór með hér og gat um að greinar og sams konar fyrirtæki í sjávarútveginum, iðnaðinum, háskólanum, eru að fara þessar leiðir til að þróa nýja atvinnutækni. Rannsóknastofnun landbúnaðarins sér auðvitað leik á borði til að fá aðila til þátttöku með sér í að þróa framtíðarverkefni. Atvinnulífið vill koma inn í þetta. Þetta er form sem reynist vel í hinum aðalatvinnuvegunum og í rauninni er bara verið að opna fyrir þá leið.

Ég þarf ekki einu sinni að svara hv. þm. um það, það er enginn áhugi hjá mér að háeffa Rannsóknastofnun landbúnaðarins og það kemur ekki til greina. En mér finnst að málið reki sig. Þetta hefur opnað bæði háskólanum og sjávarútveginum og iðnaðinum nýjar leiðir til að þróa verkefni sín, fá peninga og aðila inn með sér í þau verkefni og þetta mundi styðja Rannsóknastofnun landbúnaðarins á þessu sviði einnig og verður vonandi íslenskum landbúnaði til framdráttar.