Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:29:11 (5017)

2001-02-27 15:29:11# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og það sem lýtur að Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Þar er farið fram á heimild til að stofnunin fái möguleika á að eiga aðild að að stofna rannsókna- og þróunarfyrirtæki er séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

Herra forseti. Þetta lítur út sem texti ósköp slétt og fellt en ég verð að leyfa mér að taka undir orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar hér áðan að vissulega læðist að manni sá grunur að undir þessum fagra texta séu jafnvel falin önnur markmið. Ég velti fyrir nákvæmlega sömu spurningum og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson gerði: Hvað er það sem rekur til þessara breytinga? Er eitthvað sem hamlar starfsemi þessarar stofnunar á þessum vettvangi þannig að það reki til þess arna?

[15:30]

Í öðru lagi. Er verið að stíga þarna fyrstu skrefin í að hlutafélagavæða Rannsóknastofnun landbúnaðarins og undirbúa hana sem slíka? Mér finnst mikilvægt að það komi fram.

Er verið að taka áhættu og fela eigið vald og forsjá stofnunarinnar yfir verkefnum sínum til annarra aðila í auknum mæli sem ber að gjalda varhuga við? Hvað er það sem rekur á eftir stefnu í þá veru?

Mér finnst að það megi koma skýrar fram hvað þarna vakir fyrir mönnum, hvort verið sé með nokkuð lymskulegum hætti að hefja einkavæðingu þessarar starfsemi og þessarar stofnunar. Sá grunur læðist að manni, og gott væri ef hæstv. ráðherra gæti gefið alveg óyggjandi yfirlýsingu um hvað þarna er á ferð.

Annars, herra forseti, hvað varðar ... (Gripið fram í: Þetta er afturhalds...) Já, það eru sumir sem þurfa að halda aftur af sér og við munum að sjálfsögðu veita hæstv. landbrh. aðhald til að halda aftur af sér í að rasa ekki um ráð fram.

En hvað Rannsóknastofnun landbúnaðarins varðar og það sem þarna er verið að leggja til, þá veltir maður líka fyrir sér: hluti af hvaða heildarsýn er þetta? Rannsóknastofnun landbúnaðarins og starfsemi hennar er hluti af bæði hagnýtri og akademískri starfsemi á vegum landbúnaðarins. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Hólaskóli og Garðyrkjuskólinn vinna einnig á þessum vettvangi og ítrekað hefur verið lýst yfir að stefnt sé að aukinni samvinnu eða samruna þeirra stofnana og jafnvel tilfærslu og flutningi verkefna til menntastofnananna. Þess vegna veltir maður fyrir sér: Hluti af hvaða heildarsýn sem hér er verið að leggja til er þetta?

Ég vildi gjarnan fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvernig hann sjái einmitt Rannsóknastofnun landbúnaðarins þróast í stærra ljósi gagnvart öðrum stofnunum landbúnaðarins, sérstaklega mennastofnunum, sem er jú yfirlýst pólitísk stefna að skuli efla. Ég vil fá að heyra stefnu hans varðandi Rannsóknastofnun landbúnaðarins og þær stofnanir og þá heildarsýn sem hann hefur þar og þetta hlýtur að vera hluti af.

Ekki er meira en ár síðan, herra forseti, að þingmönnum bárust fyrst fréttir af tillögum og hugmyndum stofnana á Keldnaholti og þar í kring, um stórfelldar fjárfestingar og framkvæmdir og uppbyggingu á rannsóknamiðstöðvum, þar sem gert var ráð fyrir að meginþungi m.a. rannsókna í landbúnaði mundi færast þangað og byggjast þar upp. Nú er það svo, herra forseti, að rannsóknir í landbúnaði eiga að mínu viti fyrst og fremst að tengjast og vera byggðar upp og unnar í tengslum við menntastofnanirnar. Það sem birtist í þeirri álitsgerð sem var á ferðinni fyrir ári var aldeilis ekki sú sýn.

Það er því, herra forseti, ekkert að undra þó að við þingmenn séum haldnir nokkurri tortryggni gagnvart því þegar verið er að leggja upp í svona litla ferð eins og hér er í þessu máli, að þar séu ekki einhver önnur falin markmið.

Því leyfi ég mér að ítreka, herra forseti, að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri nákvæmlega af hvaða heildarmynd þetta er sem hér er verið að stíga varðandi uppbyggingu og þróun rannsókna- og menntastofnana landbúnaðarins.