Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:42:48 (5022)

2001-02-27 15:42:48# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. hæstv. landbrh. um breytingu á lögum nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Þar er lagt til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins sé heimilt, að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og landbúnaðarráðherra, að eiga aðild að og stofna rannsókna- og þróunarfyrirtæki er séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

Ég vil eins og þeir tveir þingmenn sem á undan mér hafa talað, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og hv. þm. Jón Bjarnason, varpa fram spurningum. Mér er ljóst að hæstv. landbrh. hefur brugðist fremur önugur við öllum spurningum sem hér hafa verið bornar fram. En spurningarnar snúast fyrst og fremst um eftirfarandi: Vitnað er til Iðntæknistofnunar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Orkustofnunar og fleiri aðila sem hafa fengið sambærilegar heimildir. En okkur er öllum ljóst að þessar stofnanir hafa náttúrlega breytt verulega um ásýnd og starfsemi á þeim tíma sem þeim hefur verið þetta heimilt. Ég tel að þeir hv. þm. sem hafa borið fram spurningar hafi fyrst og fremst verið að fiska eftir sýn hæstv. ráðherra á það hvernig þessi mál muni þróast með slíkri breytingu. Það er meginmálið.

Hv. þm. Jón Bjarnason kallaði eftir því sem er sjálfsagður hlutur, hann kallaði eftir stefnu hæstv. landbrh. gagnvart landbúnaðarrannsóknum í landinu og stefnu sem forsendu þess að gera slíkar breytingar, stefnu í menntun í landbúnaði, og voru nefndir Hólar og Garðyrkjuskóli ríkisins og náttúrlega Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Þessi mál verða að liggja fyrir til að menn átti sig á því til hvers slíkar kerfisbreytingar eða þessi heimild á að leiða. Þetta eru grundvallaratriði sem menn verða að fá svarað.

[15:45]

Það er mjög mikilvægt eins og allir vita og ég veit að hæstv. landbrh. er manna meðvitaðastur um að í svona litlu landi þar sem eru takmörk fyrir því hvað við eigum marga vísindamenn á hverju sviði að menntunargeirinn verður að vera í nánum tengslum við vísindavinnuna vegna þess hve við erum mannfá. Styrking háskólans á Hvanneyri byggir að verulegu leyti á því að hafa aðgang að þessu fólki. Ég tel að hæstv. landbn. verði að fara ofan í þessa vinnu á þessum grunni.

Eflaust eru fýsilegir kostir í því að stofnuninni sé gert kleift að vinna með öðrum eftir einhverri formúlu en ég tel að það verði að vera alveg skýrt á hvaða leið menn eru í þessu sambandi. Það eru fyrst og fremst spurningar í þessum dúr sem eru settar fram hér. Ég skildi þær ekki öðruvísi og ég skildi þær ekki sem neina árás á landbrh. gagnvart þessu litla frv. En frv. er þó ekki minna en það að þær stofnanir sem hafa tilsvarandi leyfi hafa breytt um ásýnd og starfsemi í verulegum mæli og sjái menn bara Orkustofnun í því sambandi. Það eru, herra forseti, mjög skiptar skoðanir um til hvers svona kerfisbreytingar hafa leitt.

Þess vegna er mikilvægt að mínu mati, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, sem er nefndarmaður í landbn., og hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að fara ofan í þessi mál, skoða þetta frv., út frá þeim hugmyndum sem menn hafa um þróun í landbúnarrannsóknum, hvaða sýn menn hafa og ekki síður uppsetningu menntakerfisins í landinu hvað varðar landbúnaðarmál.