Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:49:06 (5024)

2001-02-27 15:49:06# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með viðbrögð hæstv. landbrh. að þessu sinni. Ég vil þó koma því á framfæri að ekki má gera of lítið úr því að með svona tillögu, með þessu frv., er verið að leggja grunn að gríðarlegri breytingu. Orkustofnun er t.d. ekki svipur hjá sjón sem slík eftir að hún fór út í þessa breytingu. Svo gildir um fleiri stofnanir. Það er spurning mín til hæstv. landbrh. hvort hann geri sér ekki grein fyrir því að hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, ef menn ætla að fara þessa leið, verður að öllum líkindum nákvæmlega sama þróun vegna þess að verkefnin fara út og þau munu gera það í auknum mæli. Slík hefur þróunin verið alls staðar þar sem þetta hefur verið gert. Ég er ekki að segja að þetta sé vond þróun í öllum tilfellum. Í sumum tilvikum hefur þetta reynst mjög vel. En ég er að benda hæstv. landbrh. á að náttúrlega er alveg óásættanlegt að gera litla tilraun með litlu frv. án þess að gera sér grein fyrir því til hvers það leiðir.