Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 16:25:26 (5030)

2001-02-27 16:25:26# 126. lþ. 77.7 fundur 133. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðslur) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Málið sem við ræðum nú, frv. til stjórnarskipunarlaga, varðar þjóðina alla og varðar að sjálfsögðu Alþingi mjög mikils. Þó er ekki hægt, virðulegur forseti, að sjá það af veru þingmanna í sal. Hér eru þó tveir stjórnarliðar, þ.e. einn auk virðulegs forseta, í salnum núna. Lengst af hafa aðeins þingmenn Samfylkingarinnar verið hér við þessa umræðu. Menn virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessu máli að svo stöddu.

Ég tel að þetta mál yrði að því samþykktu virkileg stoð í lýðræðisundirstöðu íslenska ríkisins. Mín skoðun er sú og hefur sífellt styrkst eftir því sem árin hafa liðið, að þegnar landsins eigi kröfu á að fá að greiða atkvæði um lagasetningu sem telja má að hafi mjög víðtækar afleiðingar og varði almannahag.

Hér hafa verið nefnd nokkur dæmi um lagafrv. sem eðlilegt hefði mátt telja að leggja fyrir þjóðina, m.a. hafa verið nefnd nýsamþykkt lög sem sett voru í kjölfar öryrkjamálsins nú fyrir skömmu. Nefna mætti EES-aðildina og slík atkvæðagreiðsla ætti einnig rétt á sér ef til þess kæmi að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Eins kynni að vera ástæða að greiða þannig atkvæði um lög um fiskveiðistjórnina, lög sem reyndar hafa verið í gildi í sextán og hálft ár þó vitað sé að 75% þjóðarinnar eru fullkomlega ósátt við þau lög. Það er ótrúlegt að samt skuli meiri hluti Alþingis ráða för í því máli.

Það þarf líka að útskýra fyrir almenningi hvað þau mál sem komið gætu til þjóðaratkvæðagreiðslu hafa í för með sér. Ég er ekki viss um að almennt geri menn sér grein fyrir því að aðild að Evrópusambandinu þýði heimild til upptöku á evru, sem gerðu það um leið að verkum að verðtryggingarákvæði, þetta sérstaka stjórntæki sem Íslendingar beita, mundi falla niður. Ég hygg að menn geri sér ekki grein fyrir því. Þannig er með mörg af þeim lögum sem hér hafa verið tilnefnd og hefðu eðlilega átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna afleiðinga sem lagasetningin hefur á hverjum tíma.

Einnig verður að hafa í huga að þjóðaratkvæðagreiðsla mun trúlega kosta töluvert. Það er þó verjandi í málum eins og ég hef hér nefnt og hv. 1. flm. þessa frv., Jóhanna Sigurðardóttir, hefur ítrekað hér í framsögu.

Ég hygg að í þeim málum sem hér hafa verið nefnd sé almennur vilji í þjóðfélaginu til að fá að taka þátt í atkvæðagreiðslu um málin, t.d. um öryrkjamálið sem nefnt var. Ég tel að ríkjandi hafi verið vilji til að mál færu á annan veg en raun varð á með lagasetningu meiri hluta Alþingis.

[16:30]

Það má vitna til þess að í mörgum nágrannalöndum er heimild til að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er með mismunandi aðferðum en þó er eftirminnilegast að fylgjast með því hvernig farið er með þjóðaratkvæðagreiðslu í þjóðríki eins og Sviss þar sem greidd eru atkvæði um hin ólíklegustu mál og það þykir sjálfsagt. En á Íslandi hefur aldrei farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla á þann hátt sem hér er rætt um eftir lýðveldisstofnun í upphafi vega. Á Íslandi getum við aðeins haft áhrif með atkvæðum í kosningum til Alþingis, í kosningum til sveitarstjórna og með kosningu forseta þannig að það eru ótvírætt mjög mikil takmörk á lýðræðinu. Það eru ein mikilvægustu rökin fyrir því að setja lög varðandi þetta að auka lýðræði eins og ég nefndi í upphafi máls míns að þá væri þetta mál ein af mikilvægum stoðum undir lýðræðið.

Auðvitað má velta því fyrir sér hvort það séu rök gegn því að setja stjórnarskrárákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort ekki sé nægjanlegt að hafa bara Alþingi og kjörna fulltrúa. Þá komum við aftur að því að málefni sem hafa ekki verið til umræðu þegar kosið er til Alþingis geta komið upp og hafa komið upp og þá er eðlilegt að þegnar landsins fái möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tala ekki um að settum lögum og með þeim stífu skilyrðum sem hér er gert ráð fyrir að það eru aðeins mjög mikilvæg mál sem mundu ná fram að ganga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu verði farið að þeim tillögum sem fyrir liggja.

Herra forseti. Ég vil aðeins segja að ég hvet eindregið til að þetta mál fái góða umfjöllun og hana nokkuð skjóta. Það er ástæða til eftir að málið hefur verið flutt á fimm þingum og ég hvet til að málið verði afgreitt á þessu þingi.