Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 16:33:45 (5031)

2001-02-27 16:33:45# 126. lþ. 77.7 fundur 133. mál: #A stjórnarskipunarlög# (þjóðaratkvæðagreiðslur) frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hvað er það sem er mikilvægast í hugum flestra Íslendinga? Það er frelsi. Það er frelsi til að fá að segja hvað mönnum býr í brjósti, frelsi til að skrifa það sem þeir vilja skrifa og tjá sig á annan hátt. Við búum við skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi í þessu landi. En það hefur ekki alltaf verið svo.

Þegar við lesum Íslandssöguna sjáum við að hún einkennist af baráttu fyrir auknum réttindum og fyrir auknu frelsi einstaklinga, héraða og stétta. Einu sinni voru þrælar á Íslandi en þrælahald var afnumið vegna kristinna viðhorfa sem tóku að ríkja. Þannig má rekja söguna að ýmis réttindi hafa áunnist og mikilvægustu réttindin, sem við höfum fengið, eru náttúrlega þau að við fáum að kjósa, velja okkur þá sem eiga að fara með málefni okkar, velja okkur þá sem ákveða eða leggja fram frumvörpin til laga og hvernig á að stýra samfélaginu.

Ef við hugsum um sögu þjóðarinnar í heild er ekki langt síðan menn fóru að stofna verkalýðsfélög og það er líka til í sögu okkar á síðustu öld um það þegar menn voru að stofna verkalýðsfélög eins og á Ísafirði, þegar Ólafur Ólafsson heitinn barðist fyrir því að menn mynduðu samtök til að berjast fyrir hærri launum og bættum kjörum að hann var hrakinn á burt úr bænum vegna þess að hann sagði það sem valdinu líkaði ekki. Margt hefur gerst á þessari síðustu öld og Ísland er orðið lýðveldi, fyrst fullvalda, og við fáum að kjósa á fjögurra ára fresti í það minnsta. Engu að síður er það svo að þó að við kjósum fulltrúa okkar til að sitja á Alþingi er það samt ekki nóg vegna þess að hægt er að leggja fram frv. til laga og þau geta verið samþykkt þó að meiri hluti þjóðarinnar sé andvígur þeim. Þess vegna er þetta frv. komið fram frá nokkrum samfylkingarmönnum og það er engin tilviljun að samfylkingarþingmenn skuli bera þetta frv. upp vegna þess að eitt af baráttumálum Samfylkingarinnar er að auka og efla lýðræði í landinu og lýðræðislega umræðu. Þess vegna kemur þetta mál fram.

Ég hvet eindregið til að það fái jákvæða umfjöllun í þinginu og að menn samþykki þetta frv. því að það hefur þær afleiðingar að þó svo að frv. hafi verið samþykkt en fjöldinn allur er á móti þeim er hægt að koma því við að hægt er að breyta slæmum ákvörðunum eða niðurstöðum þingsins sem hafa stundum komið fyrir og fólk jafnvel látið mjög oft í ljósi að það mundi vilja hafa áhrif á málefnin.

Eins og ég segi er stefna Samfylkingarinnar að styðja við og styrkja og efla lýðræði og því hvet ég eindregið til þess að þetta frv. verði samþykkt.